Erlent

Tíu ára ferðalagi að halastjörnu lokið

Samúel Karl Ólason skrifar
Þessi mynd var tekin af geimfarinu í um 285 kílómetra fjarlægð frá halastjörnunni.
Þessi mynd var tekin af geimfarinu í um 285 kílómetra fjarlægð frá halastjörnunni. Vísir/AP
Eftir tíu ára ferðalag og 6,4 milljarða kílómetra er ómannaða geimfarið Rosetta komið á leiðarenda. Geimfarið er nú á sporbraut um halastjörnuna 67P/Churyumov-Gerasimenko og verður reynt að lenda könnunarfari á halastjörnunni.

Geimvísindastofnun Evrópu heldur utan um verkefnið.

Þetta er í fyrsta sinn sem slíkt er reynt, en halastjarnan er á milli sporbrauta Mars og Júpíter. Fyrst um sinn mun geimfarið vera á sporbraut 67P í um hundrað kílómetra hæð. Könnunarfarinu verður svo lent í nóvember.

Halastjarnan er á um 55 þúsund kílómetra ferð og stefnir að sólinni. Geimfarið þurfti þrjá hringi í kringum jörðina og einn í kringum mars til að ná slíkum hraða.

Vísindamenn vonast til þess að með þessum rannsóknum geti þeir lært meira um uppruna halastjarna, stjarna og pláneta. AP fréttaveitan ræddi við David Southwood, sem sá um stóran hluta verkefnisins þar til hann hætti störfum fyrir skömmu.

„Sólkerfið varð upprunalega til úr halastjörnum,“ sagði hann. Þá hafa einhverjir vísindamenn stungið upp á því að vatn hafi borist til jarðarinnar með halastjörnum.

Upprunalega stóð til að reyna að koma sýnum úr 67P aftur til jarðar, en hætt var við það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×