Erlent

Dómur yfir Pistorius kveðinn upp 11. september

Atli Ísleifsson skrifar
Pistorius hefur sjálfur viðurkennt að hafa skotið Steenkamp en ávallt neitað því að hafa banað henni af yfirlögðu ráði.
Pistorius hefur sjálfur viðurkennt að hafa skotið Steenkamp en ávallt neitað því að hafa banað henni af yfirlögðu ráði. Vísir/AFP
Thokozile Masipa, dómari í máli Oscars Pistorius, hefur tilkynnt að dómur verði kveðinn upp í málinu þann 11. september næstkomandi.

Málflutningi í réttarhöldunum yfir spretthlauparanum suður-afríska lauk fyrr í dag þegar verjandi og saksóknari fluttu lokaræður sínar.

Pistorius er gefið að sök að hafa skotið kærustu sína, Reevu Steencamp, til bana í febrúar á síðasta ári. Pistorius hefur sjálfur viðurkennt að hafa skotið Steenkamp en ávallt neitað því að hafa banað henni af yfirlögðu ráði. Hélt hann að um innbrotsþjóf hafi verið að ræða.

Barry Roux, verjandi Oscars Pistorius, sagði í lokaræðu sinni að vegna fötlunar sinnar hafi hinn 27 ára Pistorius alist upp í ótta, og þurft að  venjast þeirri hugsun að geta ekki flúið ef hætta steðjaði að. Þetta hafi valdið honum miklu óöryggi.

Saksóknarinn í málinu, Gerrie Nel, hélt því fram í lokaræðu sinni í gær að ekki verði hjá því komist að dæma Pistorius fyrir morð. Sagði hann framburð Pistorius ótrúverðugan, þar sem margt hafi stangast á.

Verði Pistorius fundinn sekur um morð gæti hann átt lífstíðarfangelsi yfir höfði sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×