Innlent

Týndist í sólarhring og gaut ellefu hvolpum á meðan

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Labrador tíkin Salka kom eigendum sínum á Vatnsenda í Flóahreppi heldur betur á óvart þegar hún lét sig hverfa í sólarhring í vikunni og mætti síðan aftur heim nýbúin að gjóta ellefu hvolpum í bæli undir grenitré við bæinn.

Ingvar Guðni Ingimundarsson á Vatnsenda er eigandi Sölku en hann er með vélsmiðju á bænum þar sem tíkin er með honum allan daginn. Ingvar Guðni og fjölskylda skruppu í sumarbústað í Borgarfjörðin í vikunni og fengu foreldra hans til að passa Sölku á meðan. En hvað gerðist þá ?

„Svo um hádegisbilð á miðvikudaginn hverfur tíkin og okkur leið auðvitað ekki vel yfir því, við héltum að hún kæmi kannski bara en svo þegar hún lét ekki sjá sig þá fórum við að leita og leita, og seinast rétt áður en við fórum að sofa um kvöldið, þá fór ég að leita og gekk einmitt þar sem bælið hennar fannst svo daginn eftir, við fundum h hana sem sagt ekki,“ segir Þórunn Kristjánsdóttir, mamma Ingvars Guðna.

Þegar Ingvar Guðni og fjölskylda komu hins vegar heim um hádegisbil á fimmtudaginn dróg til tíðinda.

„Þá bara flautaði ég úti á hlaði á hana og þá kom hún eftir smástund hlaupandi og vísaði okkur svo á hvolpana undir grenitré þar sem hún var búin að gjóta þeim öllum,“ segir Ingvar og bætir því að þarna hafi orðið mikil gleðistund. „Já, þetta var ánægjulegt, maður átti kannski von á því að hún myndi alltaf skila sér en maður var ekki viss hvernig færi með hvolpana, þetta var gaman, ekki síst fyrir krakkana“.

Það fer vel um hvolpana í þvottahúsinu á Vatnsenda og er Salka einstaklega góð mamma.

„Þetta var yndislegur endir, virkilega gaman að sjá alla þessa litlu hvolpa alla lifandi“, segir Þórunn og bætir því við að Salka hafi nóga mjólk handa þeim enda troðjúgra, það sé reyndar einn hvolpur langminnstur en hún sé helst á því að hann ætli ekki að verða undir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×