Erlent

Sameinuðu þjóðirnar láta rannsaka stríðsglæpi á Gaza

Randver Kári Randversson skrifar
Palestínsk börn flutt frá heimilum sínum á öruggari stað.
Palestínsk börn flutt frá heimilum sínum á öruggari stað. Vísir/AFP
Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna ákvað á neyðarfundi í gær að hefja rannsókn á meintum stríðsglæpum Ísraela á Gaza, þar sem Ísraelar hafi ekki gætt þess nægilega vel að vernda óbreytta borgara.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sagðist í dag harma hvert einasta dauðsfall meðal Palestínumanna, en sagði þau vera á ábyrgð Hamas. Hann gagnrýndi harðlega ákvörðun Sameinuðu þjóðanna um að hefja rannsókn á meintum stríðsglæpum Ísraela á Gaza og sagði þar vera um að ræða afskræmingu á réttlætinu.

Valerie Amos yfirmaður mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum hefur lýst yfir þungum áhyggjum af ástandinu á Gaza og segir vopnahlé bráðnauðsynlegt. Í viðtali við BBC segir hún að 118 þúsund manns leiti nú skjóls í skólum á vegum Sameinuðu þjóðanna. Matarbirgðir séu að klárast og vatn sé af skornum skammti. Ástandið á Gaza væri hræðilegt og grafalvarlegt. Amos segir engan efast um rétt Ísraels til að verja sig, en ástæða væri til að hafa verulegar áhyggjur af áhrifum aðgerðanna á óbreytta borgara.

Samkvæmt upplýsingum frá Samræmingarskrifstofu mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum hefur Ísraelshers lokað af svæði sem nær þrjá kílómetra inn í Gaza frá landamærum Ísraels,  en svæðið þekur um 44% alls landsvæðis Gaza.

Meira en 710 Palestínumenn og 30 Ísraelar hafa nú fallið í átökunum á Gaza sem staðið hafa yfir í 16 daga.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×