Fótbolti

Hólmbert verður lánaður frá Celtic

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hólmbert Aron sló í gegn með Fram í Pepsi-deildinni í fyrra.
Hólmbert Aron sló í gegn með Fram í Pepsi-deildinni í fyrra. vísir/daníel
Hólmbert Aron Friðjónsson, framherji Celtic, spilar ekki með liðinu í skosku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð heldur verður hann lánaður frá félaginu.

„Þeir eru búnir að gefa vilyrði fyrir því að hann fari á láni og eru að vinna með ákveðna klúbba,“ segir Gylfi Sigurðsson, umboðsmaður, í samtali við Vísi.

Ronny Deila, knattspyrnustjóri Celtic, valdi Hólmbert ekki í Meistaradeildarhópinn á móti KR og sagði á blaðamannafundi fyrir leikinn:

„Það hefði verið of snemmt að taka hann inn núna. Við þurfum að vinna með hann áfram og þróa hans leik. Þetta er duglegur strákur sem þarf að halda áfram að vera duglegur og bíða eftir sínu tækifæri.“

Gylfi segir Celtic-menn þó ekki vilja sleppa Hólmberti. Hann verður lánaður sem fyrr segir til liðs þar sem hægt verður að fylgjast náið með honum.

„Það eru tveir möguleikar í gangi; annar í Belgíu og hinn á Norðurlöndum. Það kemur svo í ljós á næstu dögum hvað gerist,“ segir Gylfi Sigurðsson.

Hólmbert Aron var keyptur til Celtic í desember á síðasta ári eftir að hafa skorað 10 mörk í 21 leik fyrir Fram síðasta sumar. Hann var ein af stjörnum mótsins og hjálpaði Fram að vinna bikarmeistaratitilinn, fyrsta stóra bikar liðsins í 23 ár.

Hann kom ekkert við sögu hjá Celtic á síðustu leiktíð undir stjórn Neils Lennons, en Skotinn sagði upp störfum eftir tímabilið og við liðinu tók Norðmaðurinn Ronny Deila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×