Innlent

Varaþingmaður Framsóknar hættir vegna moskumálsins

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Þorsteinn sat á þingi fyrir Framsókn i vetur.
Þorsteinn sat á þingi fyrir Framsókn i vetur. Vísir/Vilhelm
Þorsteinn Magnússon, varaþingmaður Framsóknarflokksins og meðlimur í kjördæmaráði flokksins í Reykjavík, hefur sagt sig úr flokknum vegna málflutnings framboðs flokksins í Reykjavík um afturköllun lóðar til Félags múslima og þagnar flokksforystunnar í kjölfarið.

Þorsteinn er fyrsti varaþingmaður flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður og sat á þingi í vetur í fjarveru Frosta Sigurjónssonar og Sigrúnar Magnúsdóttur.

Þorsteinn lagði ásamt fleirum fram tillögu á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins, sem fór fram í síðustu viku, þar sem málflutningur framboðsins í Reykjavík hefði verið harmaður og grunngildi flokksins um mannréttindi og trúfrelsi voru ítrekuð. Sú tillaga náði ekki fram að ganga en þess í stað var samþykkt tillaga þar sem grunngildin voru áréttuð en engar athugasemdir gerðar við málflutning framboðsins.

Forystan lét hjá líða að gera athugasemdir

Þorsteinn sendi frá sér tilkynningu, skömmu eftir hádegi. Þar segir hann meðal annars:

„Formaður og flest annað lykilfólk í forystu Framsóknarflokksins lét hjá líða að gera opinberlega athugasemdir við framgöngu framboðsins í Reykjavík meðan á kosningabaráttunni stóð. Þá fela orð formanns flokksins undanfarið að mínum dómi í sér fullkomna afneitun á því að nokkuð hafi verið athugavert við það hvernig kosningabarátta framboðsins var háð. Verða orð hans vart skilin öðruvísi en hann hafi ekkert við umræddan málflutning framboðsins að athuga. Flokkurinn hefur að mínu áliti engan veginn gert málið upp með viðunandi hætti.“

Alið á andúð á tilteknum trúarhópi

Þorsteinn gagnrýnir framgöngu Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur og annarra sem stóðu að framboði Framsóknar og flugvallarvina í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna í maí:

„Í aðdraganda borgarstjórnarkosninga nú í vor birtist ítrekað af hálfu framboðs Framsóknar og flugvallarvina boðskapur sem helst varð skilinn svo að framboðið teldi að með tilkomu mosku í Reykjavík ykjust líkur á ýmsum samfélagslegum vandamálum, þ.á m. lögbrotum. Birtist þessi boðskapur í samhengi við og í kjölfarið á yfirlýsingum frambjóðenda um að afturkalla bæri úthlutun á lóð undir mosku til Félags múslima á Íslandi. Ekkert hefur þó komið fram sem bendir til þess að samfélagsleg vandamál hafi tengst félaginu eða meðlimum þess umfram aðra þjóðfélagshópa hingað til. Með þessu var annað hvort meðvitað eða ómeðvitað alið á andúð á tilteknum trúarhópi í kosningabaráttu en slíkt sæmir engan veginn siðuðu stjórnmálaafli. Umræðan sem framboðið efndi til var að mínu mati tilefnislaus, meiðandi í garð múslima og til þess fallin að ýta undir fordóma og mismunun. Þá fær hún að mínum dómi með engu móti samræmst grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins, enda birtust þar viðhorf sem tengjast mun frekar þjóðernissinnaðri íhaldsstefnu heldur en frjálslyndri miðjustefnu.“



Lagði fram tillögu á miðstjórnarfundi


Samkvæmt heimildum Vísis lagði Þorsteinn ásamt fleirum fram tillögu á miðstjórnarfundi flokksins sem fór fram í síðustu viku. Tillagan fjallaði meðal annars ummálflutning framboðsins í Reykjavík fyrir kosningar og var stefna flokksins í mannréttindamálum ítrekuð. Einnig kom fram í tillögunni að ekki ætti að afturkalla lóð til Félags múslima. Tillagan var ekki samþykkt.

Þetta staðfestir Þorsteinn í samtali við Vísi. Hann segist ekki hafa fundið nægilega sterkan vilja til þess að taka á málinu með afgerandi hætti á miðstjórnarfundinum. „Ég vil samt taka það skýrt fram að það var enginn að tala gegn múslimum eða útlendingum á fundinum. En af einhverjum ástæðum virðist ekki hafa verið vilji til að taka á þessu með beinum hætti. Ég veit ekki af hverju svo var, kannski er bara best að flokksforystan og formaðurinn skeri úr um það.“

Þorsteinn telur jafnframt að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafi ekki tekið nógu skýrt á málinu. „Nei, mér finnst persónulega að hann hefði getað afgreitt málið strax fyrir kosningar og á miklu skýrari hátt. Hann virðist líta svo á að þeir sem setji út á þessi ummæli og málflutning fyrir kosningar séu andstæðingar flokksins. Hann hefur ekki tjáð sig efnislega um þennan málflutning framboðsins á nægilega skýran hátt og virðist ekki hafa neitt við hann að athuga.“

Ekki úthugsað útspil

Áður en Þorsteinn sagði sig úr Framsóknarflokknum í dag sat hann í kjördæmaráði flokksins í Reykjavík. Hann segist ekki halda að ummæli Sveinbjargar Birnu og stefna flokksins í þessu máli hafi verið úthugsað útspil. „Ég varð allavega ekki var við að svo væri. Ef það er staðreyndin hafa samræður um það farið fram í einhverjum lokuðum fámennum hópum. Ég hef engar upplýsingar um að svo hafi verið.“

Strax daginn eftir að Sveinbjörg Birna lýsti því yfir að hún vildi afturkalla lóð til Félags múslima, sendi Þorsteinn frá sér tilkynningu. Þar sagði hann meðal annars:

„Það hlýtur að vera réttmæt krafa að talsmenn flokksins, hvort sem er í landsmálum eða á sveitarstjórnarstigi, hagi málflutningi sínum í samræmi við hana [þ.e. grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins] en hafni sjónarmiðum sem eru til þess fallin að ýta undir mismunun.“

Þorsteinn segir að Framsóknarflokkurinn skilgreini sig sem frjálslyndan félagshyggjuflokk en. En boðskapurinn sem birtist af hálfu framboðs Framsóknar og flugvallarvina í þessu tiltekna máli sé frekar í anda þjóðernissinnaðs íhaldsflokks.

„Mér finnst það ansi skrýtin túlkun á frjálslyndi að leyfa svona þessum boðskap framboðsins að standa, án þess að gera athugasemdir við hann.“

Snædís Karlsdóttir er næst á lista til að taka við sæti Þorsteins í Reykjavíkurkjördæim Norður. Hún er ekki viss um hvort hún tekur við sem varaþingmaður í stað hans en segir marga vera að hugsa sig um í flokknum af sömu ástæðu og Þorsteinn. Margir séu á sömu línu og hann.

Uppfært klukkan 15:10

Fréttastofa óskaði eftir viðtali við Sigmund Davíð Gunnlaugsson vegna afsagnar Þorsteins. Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar, sagði í samtali við fréttastofu að forsætisráðherra væri í sumarleyfi í það minnsta út vikuna.


Tengdar fréttir

Hættu við að lýsa yfir fullkomnu vantrausti á Sveinbjörgu

Stjórn ungra Framsóknarmanna birti í gærkvöldi harðorða ályktun þar sem lýst er yfir fullkomnu vantrausti á Sveinbjörgu Birnu Sveinbjarnardóttur, oddvita flokksins í Reykjavík. Yfirlýsingin var fjarlægð skömmu síðar og engir hlutaðeigandi hafa látið ná í sig í morgun til að gefa skýringar á málinu.

Sveinbjörg Birna um andstæðinga múslima: „Þeir veðjuðu á rangan hest“

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir var spurð hvort að Framsóknarflokkurinn ætlaði að beita sér fyrir afturköllun lóðarinnar. „Nei, en við ætlum að beita okkur fyrir því að það fari fram lögleg stjórnsýsla í Reykjavík.“ Vísir fer yfir ummæli Sveinbjargar fyrir borgarstjórnarkosningarnar.

Segir frásögn Guðrúnar Bryndísar ósanna

Benedikt Þór Gústafsson, meðstjórnandi kjördæmasambands Framsóknarflokksins, segist ekki styðja málflutning innan Framsóknarflokksins um að afturkalla lóð til múslima.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×