Innlent

Yfirborð Þórisvatns átta metrum hærra

Kristján Már Unnarsson skrifar
Það eru ekki allir sem harma úrhellisdembur. Vatnshæð Þórisvatns hefur hækkað um átta metra frá lægstu stöðu í vor og þessa dagana bætast sjö gígalítrar á degi hverjum í þetta helsta vatnsforðabúr þjóðarinnar.

Þórisvatn er ekki aðeins stærsta vatn Íslands heldur vatnsmiðlun fyrir sex stórvirkjanir og telst mikilvægasta vatnsforðabúr landsins. Á síðastliðnum vetri var vatnsstaðan þar orðin það lág að Landsvirkjun neyddist til að grípa til skerðinga á raforkusölu, sem meðal annars olli því að álverin urðu að draga úr framleiðslu og brenna varð dísilolíu á Vestfjörðum og loka sundlaugum. Vatnsshæðin náði sögulegu lágmarki í byrjun apríl, fór niður í 560 metra, og var þá ellefu metrum undir meðaltali á þeim tíma, samkvæmt línuriti Landsvirkjunar.

Síðan hefur snarhækkað í vatninu, um heila átta metra, og gott betur, því vatnsborðið stóð í dag í 568,5 metrum. Vatnsborðið hækkar þessa dagana að meðaltali um ellefu sentímetra á dag, og reiknast sérfræðingum til að það jafngildi því að sjö gígalítrar bætist núna við í vatnið á hverjum degi að jafnaði.

Í dag sendi Landvirkjun svo frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að horfur á fyllingu miðlunarlóna séu nú orðnar góðar. Þannig séu yfirgnæfandi líkur á að Hálslón fyllist í ágúst, staðan í Blöndulóni sé mun betri en í fyrra og, þótt Þórisvatn nái líklega ekki að fyllast í haust, séu samt góðar líkur á að þar verði staðan betri en í fyrrahaust.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×