Fótbolti

Ekki refsað fyrir fólskulegt brot á Neymar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandið, mun ekki refsa Juan Zuniga, leikmanni Kólumbíu, fyrir brotið á Brasilíumanninum Neymar í leik liðanna í fjórðungsúrslitum HM í knattspyrnu.

Þetta tilkynnti sambandið í dag en Zuniga fór með annað hnéð af miklu afli í hné Neymar með þeim afleiðingum að sá síðarnefndi brákaði hryggjarlið.

Aganefnd FIFA tók þessa ákvörðun í dag en formaður hennar, Claudio Sulser, segir í yfirlýsingu að ekki hafi reynst unnt samkvæmt reglum sambandsins að taka afstöðu til brotsins.

„Ekki er hægt að refsa fyrir brotið eftir á þar sem atvikið fór ekki fram hjá dómurum leiksins,“ sagði í yfirlýsingunni. Aðeins er hægt að taka fyrir atvik sem þessi ef dómari leiksins varð þeirra ekki var.

„Við óskum Neymar góðs bata sem og öllum þeim leikmönnum sem þurftu að hætta leik á HM í Brasilíu vegna meiðsla.“


Tengdar fréttir

Neymar hélt að hann væri lamaður

Þjálfari brasilíska landsliðsins, Luiz Felipe Scolari, segir að stjarna liðsins, Neymar, hafi verið hræddur um að vera lamaður er hann meiddist í leiknum gegn Kólumbíu á föstudag.

Læknir Brasilíumanna segir að Neymar verði ekki meira með á HM

Læknir brasilíska landsliðsins í fótbolta staðfesti í kvöld að Neymar, aðalstjarna brasilíska landsliðsins, verði ekki meira með á HM í fótbolta í Brasilíu en framherjinn snjalli meiddist á baki í kvöld í 2-1 sigri Brasilíu á Kólumbíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×