Innlent

Reykjavíkurborg skylt að afhenda niðurstöður PISA

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/vilhelm
Reykjavíkurborg ber að  afhenda niðurstöður PISA könnunarinnar sundurliðaðar eftir grunnskólum borgarinnar. Reykjavíkurborg synjaði beiðni um að afhenda niðurstöður rannsóknarinnar á þeim forsendum að um vinnugögn hafi verið að ræða. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst ekki á það.

„Þetta eru upplýsingar sem eiga erindi við almenning. Ég tók eftir því að í umræðunni var hvergi vikið að upplýsingarétti almennings til þessara gagna um að Reykjavíkurborg hefði sett einhvers konar þagnarbindindi á borgarfulltrúa í þessu máli,“ segir Hilmar Þorsteinsson hdl. sem kærði ákvörðun Reykjavíkurborgar um að birta ekki niðurstöður PISA rannsóknarinnar 2012 eftir að hafa fengið synjun með vísan til þess að um vinnugagn hafi verið að ræða.

Ákvörðun borgarinnar var kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál  í apríl og þess krafist að gögnin yrðu afhent.

Úrskurðarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að þessi vinnugögn féllu ekki undir lög um persónuvernd og því bæri Reykjavíkurborg að afhenda Hilmari gögnin. Í úrskurðinum segir að vinnugögn teljist þau gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Gögnin voru afhent öðrum og teljast þau því ekki lengur til vinnugagna nema þau hafi einungis verið afhent eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×