Innlent

Skólastjórinn í Borgaskóla starfar nú í Fellaskóla

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Inga Þórunn við bláberjatínslu nærri Húsavík.
Inga Þórunn við bláberjatínslu nærri Húsavík.
„Þetta er gaman að heyra. Það er verst að skólinn hafi verið settur í þá stöðu að vera ekki lengur sjálfstæður skóli,“ segir Inga Þórunn Halldórsdóttir, fyrrverandi skólastjóri í Borgarskóla. Skólinn kom best út allra skóla í Reykjavík í niðurstöðum PISA-rannsóknarinnar sem fimmtán ára nemendur þreyttu árið 2012.

Borgaskóli og Engjaskóli í Grafarvogi voru sameinaðir í nýjan skóla, Vættaskóla, um áramótin 2012 til 2013 í hagræðingarskyni. Nemendur úr Engjaskóla skoruðu aðeins yfir meðallagi í PISA-prófinu en sem áður sagði stóðu nemendur Borgaskóla sig best.

„Ég var fyrst og fremst með alveg rosalega gott og samhæft starfslið. Það skipti mestu máli,“ segir Inga Þórunn spurð um góðan árangur nemendanna. Hún viðurkennir að skólinn hafi verið rekinn af miklum metnaði. „Það skiptir máli að hafa metnað til að allt gangi vel. Að sætta sig aldrei við minna en það sem er gott.“

Samstarf við nemendur og foreldra hafi verið sérstaklega gott en mestu máli hafi skipt það úrval kennara sem mynduðu einstaklega gott lið. Þá hafi skólinn farið í gegnum þróunarverkefni þar sem mikil áhersla hafi verið lögð á kennslu yngri barna, sérstaklega í þeim grunngreinum á borð við lestur, stærðfræði og náttúrufræði. Sýn þeirra hafi verið skýr og markvisst unnið að markmiðum.

Fellaskóli.Vísir/Stefán
Kennir nú í Fellaskóla

Inga Þórunn var í sumarfríi í Svíþjóð þegar blaðamaður náði af henni tali. Hún lét af störfum við sameiningu skólanna tveggja um áramótin 2012 til 2013. Í dag er hún í hálfu starfi sem verkefnastjóri í sérkennslu við Fellaskóla en er annars komin á eftirlaun. Fellaskóli er einmitt sá skóli sem kom verst út úr PISA-könnuninni árið 2012.

„Þetta eru svo gjörólík umhverfi og aðstæður,“ segir Inga Þórunn um Borgahverfi og Fellahverfi. „Þetta er ekki sambærilegt og ósanngjarnt gagnvart Fellaskóla að bera saman.“ Hún minnir á að allt öðruvísi þurfi að haga kennslu í Fellaskóla enda hátt í sjötíu prósent nemenda af erlendu bergi brotinn. Íslenska sé erfitt mál að læra.

„Við Íslendingar höfum svo litla reynslu af því að vinna með börnum af erlendum uppruna. Við höfum látið þetta í hendurnar á skólastjórnendum sem standa frammi fyrir endalausum vandamálum,“ segir Inga Þórunn. Hún óskar þess að neikvæðri umfjöllun um Fellaskóla linni og fjölmiðlar kynni sér frekar það góða starf sem eigi sér þar stað.

„Það er erfitt að vinna gott skólastarf þegar stöðugt er verið að hamra á því að þú sért ekki að standa þig vel.“


Tengdar fréttir

Ekki hægt að horfa framhjá innflytjendabreytunni

67 prósent nemenda í Fellaskóla eru af erlendu bergi brotin. Nemendur við skólann koma illa út úr niðurstöðum PISA-rannsóknarinnar. Átak í móðurmálskennslu hjá yngstu nemendum vekur ástæðu til bjartsýni.

Borgaskóli kom best út úr PISA

Hæfni nemenda var metinn eftir þremur þáttum; stærðfræðilæsi, lesskilningi og náttúrufræðilæsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×