Erlent

„Þetta er bara hrikalegt og vekur mikinn óhug“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Árni Már hefur búið í Yaletown undanfarin tvö ár.
Árni Már hefur búið í Yaletown undanfarin tvö ár.
Fimmtíu og tveggja ára karlmaður liggur þungt haldinn eftir skotárás sem átti sér stað í Yaletown í Vancouver í Kanada í gær. Skotárásin átti sér stað fyrir utan vinnustað hans. Íslendingur á svæðinu segir árásina hafa vakið mikinn óhug á meðal fólks.

„Það sem er svo sjokkerandi er það að svona hlutir gerast aldrei hérna. Það átti enginn von á þessu,“ segir Árni Már Þrastarson. Árni hefur búið á svæðinu undanfarin tvö ár þar sem hann leggur stund á meistaranám.

Hann segir manninn sem skotinn var afskaplega viðkunnanlegan mann sem rekur hjólreiðaverslun, en árásarmaðurinn var starfsmaður í verslun mannsins.

„Eftir að hann skaut manninn stökk hann upp á hjól og hjólaði að svæði sem vinsælt er hjá grunnskólabörnum. Þar króaði lögreglan hann af,“ segir Árni.

Skotárásin upphófst að nýju þegar eftirför lögreglu hófst og slösuðust tveir lögregluþjónar, þó minniháttar.

„Til mikillar lukku var læknir á svæðinu sem hafði starfað á bráðamóttöku síðastliðin 20 ár og það er líklega honum að þakka að maðurinn skuli enn vera á lífi. Hann var með 15 sentímetra gat á bakinu og búinn að missa um fjóra lítra af blóði.“ Stórum hluta borgarinnar var lokað í kjölfar árásarinnar og var fólki haldið inni í nærliggjandi byggingum.

„Þetta er bara hrikalegt og vekur mikinn óhug,“ segir Árni að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×