Erlent

Fjórar konur hengdar á örfáum vikum

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AP
Ung kona sem hafði verið hengd upp í tré fannst nýverið í þorpi í norðurhluta Indlands. Hún er sú fjórða sem deyr á þann hátt í Uttar Pradesh héraði á einungis örfáum vikum. Fjölskylda 19 ára konunar segir henni hafa verið nauðgað en krufning stendur nú yfir.

Í gær hafði lík annarrar konu fundist hangandi í tré í öðru þorpi í Uttar Pradesh héraði. Hún var 44 ára gömul og hafði henni verið hótað af íbúum þorpsins fyrir að selja áfengi, samkvæmt lögreglu.

Þann 29. maí voru tvær táningsstúlkur hengdar eftir að þeim hafði verið nauðgað af hópi manna. Þrír menn hafa verið handteknir grunaðir um aðild að málinu. Einnig hafa tveir lögreglumenn verið ákærðir eftir að þeir neituðu að hjálpa föður annarrar stúlkunar að leita að henni. Ástæða þess var að hún var hluti af mjög lágt settri stétt Indlands.

Samkvæmt frétt á vef BBC hafa fleiri slík mál verið tilkynnt lögreglu.

Fréttaritari BBC segir slíkar árásir lengi hafa verið algengar í héraðinu, en mikil umfjöllun um glæpi gegn kvenmönnum í Indlandi hafi leitt til þess að öll mál sé tilkynnt lögreglu og fái fjölmiðlaumfjöllun.

Héraðið er það fjölmennasta í Indlandi, með yfir 200 milljónir íbúa, en þar ríkir einnig mikil fátækt. Fátækar konur úr lægstu stéttum Indlands eru í mestri hættu um að verða fyrir slíkum glæpum.


Tengdar fréttir

Nauðgað og hengdar í tré

Tvær indverskar táningsstúlkur fundust hengdar í tré eftir að hafa verið nauðgað af hópi manna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×