Innlent

"Viss um að þetta hefði ekki þurft að fara svona“

Randver Kári Randversson skrifar
Systir mannsins sem lést í skotárásinni í Hraunbæ segir ýmislegt athugavert við vinnubrögð lögreglunnar á vettvangi.
Systir mannsins sem lést í skotárásinni í Hraunbæ segir ýmislegt athugavert við vinnubrögð lögreglunnar á vettvangi. Vísir/Stefán
„Í skýrslunni er bara verið rekja atburðarásina, á kostnað hans, og til þess að verja störf lögreglunnar. Svona eins og það hafi bara verið í lagi að gera þetta. Það eru engar athugasemdir gerðar við vinnubrögð lögreglunnar,“ segir Sigríður Ósk Jónasdóttir, systir Sævars Rafns Jónassonar sem var felldur af lögreglumönnum á heimili sínu í Hraunbæ í desember síðastliðnum. 

Niðurstaða rannsóknar ríkissaksóknara um málið verður birt um klukkan tvö í dag, en Sigríður átti fund með ríkissaksóknara í morgun þar sem hún fékk að sjá niðurstöðurnar.

Sigríður segir ýmislegt hafa verið athugavert við vinnubrögð lögreglunnar í málinu. „Það má setja spurningamerki við allt þetta ferli. Þegar lögreglan kemur á vettvang þá vita þeir ekkert hver býr þarna. Þeir eru með rangt nafn á manninum í upphafi. Það er ekkert gert til að kanna hans bakgrunn eða neitt svoleiðis.“

Jafnframt segir hún margt í skýrslunni sem passar ekki við það sem áður hefur komið fram um málið. „Hann skaut aldrei áður en lögreglan kom. Í öllu þessu ferli þá skýtur hann átta sinnum, en fréttirnar í upphafi voru þannig að hann hefði skotið í sífellu. Það er bara ekki rétt. Það er búið að fegra þetta svo mikið núna, eins og þetta sé bara alveg í lagi,“ segir Sigríður.

Hún segist vera viss um að atburðarásin í upphafi hefði orðið önnur ef lögregla hefði brugðist betur við í upphafi. „Ég er eiginlega alveg viss um að þetta hefði ekki þurft að fara svona, ef málið hefði verið kannað betur í upphafi,“ segir Sigríður.

Sigríður segir að vel hafi verið brugðist við þeim athugasemdum sem hún kom á framfæri í morgun og að trúlega fáist svör við þeim.


Tengdar fréttir

Skotárásin í Hraunbæ: „Kerfið gafst upp á honum“

„Það er ekkert að gerast sem bendir til þess að lærdómur sé dreginn af þessum hrikalega atburði,“ segir Gunnar Kr. Jónasson, bróðir Sævars Rafns Jónassonar sem féll fyrir hendi lögreglu í skotárás í Hraunbæ þann 2. desember í fyrra.

Lögregla braut ekki lög í Hraunbæjarmálinu

Ríkissaksóknari úrskurðari í dag að lögreglan hefði farið að lögum þegar hún skaut Sævar Rafn Jónasson til bana í Hraunbæ í desember síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×