Innlent

Formenn flokkanna undirbúa að kalla saman þing

Linda Blöndal skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur haft samband við formenn stjórnmálaflokkanna á Alþingi um að vera reiðubúnir til að kalla saman Alþingi með stuttum fyrirvara, stefni í verkfall flugvirkja. Þing gæti jafnvel verið kallað saman strax í hádeginu á morgun. 

Ekkert hefur þokast í dag í viðræðum flugvirkja við Icelandair. Vinnustöðvun hófst klukkan sex í morgun og stendur í sólarhring.  Annað eins krísuástand hefur ekki komið upp, sagði María Rún Hafliðadóttir, talsmaður þjónustuvers Icelandair, í fréttum Stöðvar tvö í kvöld.

Icelandair felldi í dag niður 65 flugferðir eða nær allar ferðir félagsins. Þeir sem hættu við ferðir fengu sumir endurgreitt og var aukaflugferðum bætt við í gær og fleirum verður bætt við á morgun. Ótímabundið verkfall um 180 flugvirkja hefst á fimmtudag, semjist ekki fyrr en möguleiki er líka á að Alþingi grípi inn í með lagasetningu.

Maríus Sigurjónsson, formaður samninganefndar flugvirkja, segir viðræður stranda á umræðu um vinnufyrirkomulag flugvirkja. Hann segist ekki hafa trú á því að sett verði lög á mögulegt verkfall flugvirkja.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra gaf ekki kost á viðtali en í skilaboðum til fréttastofu var sagt að innan ráðuneytisins væri fylgst grannt með gangi mála og engar ákvarðanir hafi enn verið teknar um lagasetningu. Það er því ekki útilokað að farið verði sömu leið og gagnvart flugmönnum í liðnum mánuði.



Tengdar fréttir

Flugvirkjar hrella ferðaþjónustufólk

Samtök ferðaþjónustunnar skora á flugvirkja og Icelandair að ná samningum áður en til boðaðs verkfalls flugvirkja kemur hinn 19. júní.

Vinnustöðvun flugvirkja í dag

Kjarasamningar Icelandair og flugvirkja tókust ekki í gær og mun ótímabundið verkfall hefjast á fimmtudag að óbreyttu.

Lítið þokast hjá flugvirkjum

Það þokaðist lítið í samkomulagsátt á fundinum í gær. Menn voru að kasta á milli sín hugmyndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×