Erlent

Enn leitað að byssumanninum í Kanada

Samúel Karl Ólason skrifar
Justin Bourque sást í gæ ganga þungvopnaður um götur Moncton.
Justin Bourque sást í gæ ganga þungvopnaður um götur Moncton. Vísir/AP
Enn er leitað að manni sem skaut fimm fjallalögreglumenn í bænum Moncton í Kanada í morgun. Þrír lögreglumanna létust. Íbúum bæjarins hefur verið ráðlagt að halda sig í húsum sínum og læsa hurðum.

Tugir vopnaðra lögreglumanna ganga nú um götur bæjarins og leita mannsins sem heitir Justin Bourque. Grunur leikur á að hann hafi flúið í nálægt fjalllendi.

Á blaðamannafundi í dag bað talskona lögreglunnar íbúa um að halda sig innandyra þrátt fyrir að það gæti reynst sumum erfitt.

Hún sagði lögregluna notast við þyrlur, hunda og sérsveitir við leitina. Alls taki nokkur hundruð lögreglumenn þátt, sem komi frá nálægum borgum og bæjum.

Ofbeldi er ekki algengt í Moncton og þá sérstaklega ekki þar sem byssur koma við sögu. Skólar og opinberir vinnustaðir voru lokaðir í dag, póstur fór ekki í dreifingu og strætóar gengu ekki. Morðin voru þau fyrstu í bænum á þessu ári, en 69 þúsund manns búa þar.

Bourque sást þrisvar sinnum í gær og bar hann fjölda vopna og var klæddur í feluliti. Lögreglunni barst tilkynning um vopnaðan mann á ferðinni og þegar þeir mættu á vettvang skaut hann á þá og myrti þrjá og særði tvo.

Þetta er alvarlegasta árásin á meðlimi fjallalögreglunar í Kanada frá árinu 2005. Þá felldi byssumaður fjóra lögreglumenn, en sú árás er sú alvarlegasta í 120 ár. Síðast lést meðlimur fjallalögreglunar af völdum skotsára árið 2007.

Conrad Gagnon var heima hjá sér að spila tölvuleik þegar hann sá Bourque fyrir utan hús sitt.

„Hann var eins og hann væri á einhverju. Eins og einhver á eiturlyfjum í sínum eigin heimi. Hann var að tala við sjálfan sig, því ég sá varirnar hreyfast,“ sagði Gagnon við AP fréttaveituna. „Skömmu eftir það heyrði ég skothríð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×