Enski boltinn

Martínez: Barkley fer ekki fet

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ross Barkley spilaði frábærlega fyrir Everton á leiktíðinni.
Ross Barkley spilaði frábærlega fyrir Everton á leiktíðinni. Vísir/Getty
Roberto Martínez, knattspyrnustjóri Everton, ætlar ekki að selja enska ungstirnið RossBarkley frá félaginu sama hversu vel hann stendur sig á HM í Brasilíu í sumar.

Þessi tvítugi miðjumaður blómstraði undir stjórn Martínez á tímabilinu og er í landsliðshópi Englands sem fer á HM í Brasilíu í næsta mánuði. Fastlega má búast við að hann heilli enn fleiri þar og stærri lið fari að sækjast eftir kröftum hans.

„Nei, nei, því það yrði rangur kostur hjá honum að fara núna,“ sagði Martínez við blaðamenn aðspurður um orðróma þess efnis að Barkley gæti mögulega verið seldur til hæstbjóðanda í sumar.

„Ross er ofurstjarna nú þegar í okkar augum og ekkert mun breyta þeirri skoðun. Hann verður samt í stöðu í sumar til að heilla milljónir manna, ekki bara Englendinga. Þannig mót er HM.“

„Ross mun samt ekki líta á þetta sem sýningarglugga fyrir sjálfan sig. Hann mun bara reyna að standa sig fyrir England. Hann mun koma til baka með sama hugarfar og hann fór með,“ segir Martínez sem ítrekar að það verði að vernda svona hæfileikaríka pilta.

„Ross er ótrúlegum hæfileikum gæddur og er líklega besti ungi enski leikmaður sem ég hef séð. En hann er ekki fullmótaður þannig við þurfum að fara varlega. Það er okkar að vernda hann og ég veit að Everton er rétti staðurinn fyrir hann næsta árið,“ segir Roberto Martínez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×