Innlent

Brynjar ætlar ekki að sækja um skuldaniðurfellingu

Jakob Bjarnar skrifar
Vilhjálmur, Brynjar og Pétur. Þessir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa, ef af líkum lætur, átt í djúpum samræðum við samvisku sína vegna skuldaniðurfellinga.
Vilhjálmur, Brynjar og Pétur. Þessir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa, ef af líkum lætur, átt í djúpum samræðum við samvisku sína vegna skuldaniðurfellinga.
Brynjar Níelsson stjórnarþingmaður upplýsti í útvarpsþættinum Bítið nú í morgun að hann ætli ekki að sækja um skuldaniðurfellingu á sínum húsnæðislánum.

Brynjar kom inn í efnahags- og viðskiptanefnd þegar frumvarpið um skuldaniðurfellingar var afgreitt þaðan, sem varamaður fyrir Vilhjálm Bjarnason sem ekki gat sótt fundinn sem haldinn var 9. maí.  DV greindi frá þessu á sínum tíma. Naumur meirihluti fimm manna var fyrir málinu í nefndinni. Vilhjálmur, sem, auk Péturs Blöndal, hefur lýst sig andvígan þessum aðgerðum og greiddi atkvæði gegn málinu þegar það var samþykkt á þingi nú fyrir helgi, gat ekki verið viðstaddur þegar efnahags- og viðskiptanefnd afgreiddi málið því hann þurfti að vera á öðrum fundi, sem hann hefur þó ekki viljað upplýsa um hver sá mikilvægi fundur var. Brynjar greiddi atkvæði með málinu í nefndinni en var hins vegar fjarverandi þegar greitt var atkvæði um málið á Alþingi.

Brynjari vafðist tunga um tönn spurður hvort hann fagnaði því að skuldaniðurfellingarnar hafa nú orðið að veruleika. „Af hverju ertu að koma með svona erfiða spurningu svona snemma á morgnana? Ég auðvitað, er mjög fylgjandi því sem gert var varðandi skattalækkanir, enda hluti af kosningaloforðum Sjálfstæðisflokksins. En, hef aldrei leynt því að ég er ekki eins hrifinn af hinu, en fallist á það að þetta sé hluti af ákveðinni efnahagsaðgerð,“ sagði Brynjar meðal annars í morgun.

Þá sagðist Brynjar hissa á því hversu margir eru búnir að sækja um skuldaniðurfellingar en sjálfur hafi hann ekki hugsa sér að sækja um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×