Innlent

Segir ólöglegt að skrá stjórnmálaskoðanir almennings

Jakob Bjarnar skrifar
Gísli Tryggvason telur mikilvægt að fá úr því skorið hvort það standist lög; skrár sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið um stjórnmálaskoðanir fólks.
Gísli Tryggvason telur mikilvægt að fá úr því skorið hvort það standist lög; skrár sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið um stjórnmálaskoðanir fólks.
Dögun hefur sent Persónuvernd erindi og óskað eftir því að stofnunin kanni hvort stjórnmálaflokkar haldi skrár yfir stjórnmálaskoðanir einstaklinga, aðrar en flokksfélagaskrá, án tilskilinnar heimildar.

Gísli Tryggvason lögmaður er að vinna í málinu og vísar í lög sem segja til um að upplýst samþykki sé áskilið frá þeim sem er að finna á slíkum skrám en samkvæmt 2. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga eru stjórnmálaskoðanir viðkvæmar persónuupplýsingar. „Við teljum mikilvægt að fá úr því skorið hvort skrár sem Sjálfstæðisflokkurinn virðist lengi hafa haldið yfir stjórnmálaskoðanir almennings, standist persónuverndarlög,“ segir Gísli í samtali við Vísi.

Nýverið óskaði umboðsmaður Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi eftir að fá afhenta lista yfir meðmælendur annarra framboða. Í fréttum um málið kom fram að tilgangurinn væri sá að strika meðmælendur af skrám yfir fólk sem haft yrði samband við í kosningabaráttu flokksins. Jafnframt kom fram að áralöng venja væri fyrir því að haldnar væru slíkar skrár yfir stjórnmálaskoðanir fólks. VestNord lögmenn telja slíka venju ekki veita heimild til skráningar viðkvæmra persónuupplýsinga.

Dögun álítur sem sagt mikilvægt að Persónuvernd kanni hvort rétt sé að stjórnmálaflokkar safni slíkum upplýsingum um stjórnmálaskoðanir almennings og ef svo er hvort farið sé að lögum við meðferð slíkra upplýsinga. „Svo teljum við þetta ekki í samræmi við stjórnarskrárákvæði sem tryggir frelsi til skoðana. Persónuvernd hefur hlutverk og valdheimildir til að kanna þetta og því fól Dögun VestNord lögmönnum að senda þetta erindi,“ útskýrir Gísli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×