Innlent

Fær engin svör frá íslenskum yfirvöldum

Hrund Þórsdóttir skrifar
„Mig langar bara að fá að vera á Íslandi og byggja upp líf og framtíð með konunni minni,“ segir sýrlenskur hælisleitandi sem giftur er íslenskri konu, en var engu að síður vísað úr landi fyrr í þessum mánuði. Þau hafa engin svör fengið um framhaldið þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Hassan Al Haj er kvæntur Margréti Láru Jónasdóttur en bíður nú í mikilli óvissu í Svíþjóð, eftir svörum um hvort hann fái að snúa aftur til Íslands. Hann segir lögreglumenn óvænt hafa komið á heimili þeirra hjóna en sjálfur hafi hann ekki skilið hvað fram fór fyrr en einn lögreglumannanna útskýrði það.

„Mér var sagt að ég ætti að fara vegna ákvörðunar ráðuneytisins. Mér var gefin ein vika til að yfirgefa landið og hafði ekki tíma til að ráðfæra mig við lögfræðing, eða gera nokkuð annað,“ segir Hassan. „Þetta var mjög slæmt og það var erfitt að yfirgefa konuna mína, af engri ástæðu. Ég er ekki hælisleitandi lengur, núna þegar ég er orðinn giftur.“

Hassan og Margrét giftu sig í mars og segir lögfræðingur þeirra hjóna þau engar upplýsingar hafa fengið síðan Hassan var vísað úr landi, þrátt fyrir margítrekaðar beiðnir til innanríkisráðuneytisins og Útlendingastofnunar. Honum líður ekki vel í Svíþjóð þar sem hann veit ekki hvað tekur við.

Hassan er Sjía múslimi en þeir hafa orðið fyrir miklum ofsóknum í Sýrlandi. Hann fékk líbanskt vegabréf til að sleppa við herskyldu í Sýrlandi en fyrir vikið líta Svíar á hann sem Líbana og neituðu honum um hæli þar sem ástandið í Líbanon er skárra en í Sýrlandi. Hann var á leið til Kanada til að sækja um hæli þegar hann var stöðvaður á Íslandi árið 2013 og þurfti að sitja í einangrun og svo í fangelsi. Hann óttast að verða sendur aftur til Líbanon.

„Mig langar bara að fá að vera á Íslandi og byggja upp líf og framtíð með konunni minni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×