Fótbolti

Lahm: Ekki markmiðið að spila eins og Barcelona

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Phillip Lahm og félagar héldu boltanum á móti Real en voru jarðaðir engu að síður.
Phillip Lahm og félagar héldu boltanum á móti Real en voru jarðaðir engu að síður. Vísir/Getty
Phillip Lahm, fyrirliði Þýskalandsmeistara Bayern München, segir ekkert til í því að Pep Guardiola, þjálfari liðsins, sé að reyna breyta Bæjurum í Barcelona, hans gamla lið.

Bayern hefur verið gagnrýnt á undanförnum vikum fyrir fótboltann sem það spilar en það hefur verið að halda boltanum mikið. Það dugði skammt gegn Real Madrid í undanúrslitum Meistaradeildarinnar þar sem liðið féll úr leik.

Sjálfur keisarinn, Franz Beckenbauer, gafst upp á því að horfa á liðið spila en hann þolir ekki „tiki-taka“-fótboltann sem Bæjarar voru byrjaðir að spila. Þá aðferð fullkomnaði Guardiola hjá Barcelona.

„Barcelona setti viðmiðið í knattspyrnunni 2008-2012 og spilaði mjög spennandi fótbolta. En það var aldrei markmiðið að verða annað Barcelona-lið,“ segir Lahm í viðtali við þýska tímaritið Kicker.

„Við höfum sýnt undir stjórn Guardiola að við getum spilað okkar eigin fótbolta með góðum árangri. Við höfum verið hættulegir í sókninni og haldið boltanum vel, líkt og Barcelona. Þegar þú ert með boltann þá stýrir þú leiknum.“

„Bayern hefur aldrei spilað neitt „tiki-taka“, sama hver skilgreiningin er á því. Við fundum okkar eigin leikstíl sem hefur skilað okkur góðum árangri og við munum halda áfram að bæta hann,“ segir Phillip Lahm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×