Innlent

Eini kennarinn í skólanum

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Hún segir sveitina yndislegan stað til að vera á og ómissandi lífsreynsla sé að fara í Krossneslaug.
Hún segir sveitina yndislegan stað til að vera á og ómissandi lífsreynsla sé að fara í Krossneslaug.
Rithöfundurinn Vigdís Grímsdóttir hefur verið ráðin til þess að kenna í Finnbogastaðaskóla næsta vetur. Skólinn er í Trékyllisvík vestur á Ströndum og þar stunda fimm nemendur nám í 1. til 9. bekk.

„Skólastjórinn og ég skiptum kennslunni á milli okkar,“ segir Vigdís í samtali við Vísi. „Svo kemur sundkennari hingað og kennir nemendunum í sundlaug upp í fjöllunum, Krossneslaug.“

Vigdís hefur áður kennt við skólann en hún leysti af í fæðingarorlofi í hálfan vetur fyrir nokkrum árum síðan. „Ég er búin að vera hérna meira og minna í fimm ár og ég er með lögheimili mitt hér. Hér hef ég verið á kaffihúsinu í Norðurfirði yfir veturinn og skrifað. Vigdís hefur svo fært sig til Reykjavíkur á sumrin.

Hún segir sveitina yndislegan stað til að vera á og ómissandi lífsreynsla sé að fara í Krossneslaug. Ekki sé verra að vera þar ásamt einum öðrum og horfa upp í himininn á stjörnurnar meðan slakað er á í lauginni.

Vigdís hefur reynslu af kennslu og er meðal annars með kennarapróf frá Kennaraskólanum. „Ég kenndi í Landakotsskóla, þeim fræga grunnskóla veturinn 1974 til 1975 og svo kenndi ég íslensku í Flensborgarskólanum í tæp 12 ár“

„Síðan hef ég alltaf gripið til kennslu af og til ef einhver er veikur og svona,“ segir Vigdís.

Meðfram kennslunni ætlar Vigdís að vinna að minningasögu Sigríðar Halldórsdóttur, dóttur Halldórs Laxness. „Við höfum verið að vinna í henni saman og það hefur verið mjög skemmtilegt ferðalag og gaman að vera á Ströndum á meðan.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×