Erlent

Lögreglumenn í Túnis dæmdir fyrir nauðgun

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Mótmæli við dómshúsið í Túnis.
Mótmæli við dómshúsið í Túnis. Vísir/AP
Tveir lögreglumenn í Túnis hafa verið dæmdir til að sitja sjö ár í fangelsi fyrir að hafa nauðgað ungri konu. Þriðji lögreglumaðurinn fékk tvö ár fyrir að hafa reynt að kúga fé út úr kærasta konunnar.

Nauðgunin átti sér stað í september árið 2012. Stuttu eftir að málið komst í hámæli var konan ákærð fyrir brot á lögum um almenna siðsemi.

Þau viðbrögð urðu til þess að hrinda af stað fjölmennum mótmælum. Málið hefur allt vakið mikla eftirtekt, og varð að eins konar prófmáli um það hvernig tekið yrði á réttindum kvenna í landinu. Árið áður hafði stjórn landsins hrakist frá völdum vegna uppreisnar almennings í arabíska vorinu svonefnda.

Lögmaður konunnar, Radhia Nasraoui, segir dóminn hins vegar alltof vægan: „Þetta er hneyksli,” hefur AP fréttastofan eftir henni. „Þeir neituðu öllu. Þeir voru jafnvel svo ósvífnir að segja að hún hafi leitað á þá.”

Lögreglumennirnir þrír réðust á konuna og kærasta hennar í bifreið. Tveir þeirra nauðguðu konunni, hvor á eftir öðrum, á meðan sá þriðji hélt kærasta hennar föstum. Þessi þriðji lögreglumaður þröngvaði kærastanum einnig til að taka fé út úr hraðbanka.

Siðferðisbrotsákæran var dregin til baka eftir að konan hafði skrifað bók um reynslu sína. Bókin nefnist „Sek um að hafa verið nauðgað”. Þessa bók gaf hún út undir dulnefninu Meriem Ben Mohamed, og hefur einnig notað það nafn við réttarhöldin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×