Erlent

Fékk vélsög í hálsinn og lifði af

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
James Valentine var ótrúlega heppinn.
James Valentine var ótrúlega heppinn.
Skógarhöggsmaðurinn James Valentine frá Pennsylvania í Bandaríkjunum var ótrúlega heppinn að sleppa lifandi þegar hann fékk vélsög í hálsinn.

Valentine hafði klifrað upp í tré til þess að saga niður greinar þegar hann missti takið á söginni með þeim afleiðingum að keðjan á söginni hrökk inn í háls hans og í öxl. Valentine þurfti að klifra niður úr trénu með sögina fasta í hálsinum, því hann vissi að hann mætti ekki fjarlæga sögina úr hálsinum og opna þar með sárið.

Valentine þurfti að beita söginni á óhefðbundinn hátt til þess að forðast rafmagnslínur og því var hann í meiri slysahættu en ella. Starf Valentine er frekar óvenjulegt. Það felst í því að klifra í trjám og snyrta greinar. Hann þarf gjarnan að klifra hátt upp til þess að snyrta greinar og saga tré.

Læknar hafa nú birt ótrúlegar röntgen myndir sem sína blaðið á söginni langt inn í hálsi mannsins. Á einhvern ótrúlegan hátt fór sögin ekki í neinar mikilvægar æðar og skaddaðist mæna Valentine heldur ekkert.

Þurftu að taka sögina í sundur

Þegar sjúkraflutningamenn komu á vettvang varð þeim  ljóst að þeir þurftu að fjarlæga blaðið á söginni frá mótornum. Þeir vissu að það væri ekki hægt að flytja Valentine á spítala með þunga vélsögina fasta í hálsinum.

„Ef þeir hefðu tekið blaðið úr hefðu þeir opnað sárið og hugsanlega opnað fyrir miklar blæðingar,“ útskýrir Christine Toevs, skurðlæknir sem tók á móti Valentine.

Var vakandi og gat spjallað

Toevs segir ástand Valentine hafa verið ótrúlega gott. „Hann var ekki í lífshættu. Hann gat spjallað við okkur þegar hann kom á spítalann.“

Hún segir Valentine hafa verið heppinn – blaðið fór nánast eingöngu í vöðva – en ekki í æðar eða í mænuna.

Valentine mun ná sér að fullu – eftir þetta ótrúlega slys. Hann segist ætla að halda áfram iðju sinni – að snyrta tré – um leið og hann kemst á fætur. „Þetta er það sem ég geri,“ útskýrir hann harður af sér.

„Þetta hefði samt getað endað illa. En það hefur einhver verið að fylgjast með mér,“ segir hann ennfremur.

Hér að neðan má sjá frétt CNN um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×