Erlent

Skaut þrjá og særði sextán í Texas

Vísir/AFP
Bandarískur hermaður gekk berserksgang á Fort Hood herstöðinni í Texas í gærkvöldi og hóf skothríð á félaga sína. Hann varð þremur að bana og særði sextán áður en hann framdi sjálfsmorð.

Maðurinn er sagður vera þrjátíu og fjögurra ára gamall og mun hann hafa gegnt herþjónustu í Írak fyrir nokkrum misserum og síðan þá hafi hann strítt við geðræn vandamál. Obama forseti segist harma atburðinn mjög en þetta er ekki í fyrsta sinn sem slíkt atvik gerist á stöðinni.

Árið 2009 varð hermaður þrettán félögum sínum að bana og særði hann þrjátíu og tvo. Sá bíður þess nú að dauðadómi verði framfylgt.

Í því tilviki var um hryðjuverk að ræða en nú er ekki grunur um að það hafi verið ástæðan fyrir því að maðurinn gerði árásina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×