Erlent

Áttræð kona fryst lifandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Maria de Jesus Arroyo, var sögð látin á spítala í júlí 2010 eftir að hafa fengið hjartaáfall, 80 ára gömul. Þá var hún færð í líkhús sjúkrahússins Boyle Heights og sett í frysti. Dögum seinna þegar vitja átti líksins fannst hún í frystinum með brotið nef og sár á andlitinu.

Eiginmaður Maríu og átta börn þeirra höfðuðu upprunalega mál gegn sjúkrahúsinu vegna slæmrar meðferðar á líki hennar. Við meðferð málsins í desember 2011 sagði sérfræðingur þó að hún hefði verið á lífi í frystinum og vaknað vegna kuldans og reynt að sleppa úr prísundinni.

Sagt er frá þessu á vef CBS.

„Starfsmenn líkhússins fundu Maríu á grúfu í líkpokanum, sem sagði sérfræðingum að hún hafi verið að reyna að komast út,“ sagði Scott Schutzman, lögfræðingur fjölskyldunnar. Í ljós kom að hún hafi ekki látist af hjartaáfallinu, heldur vegna köfnunar og ofkælingar.

Fjölskyldan dró kæru sína til baka í maí 2012 og höfðaði nýtt mál vegna læknamistaka. Dómari vísaði málinu hins vegar frá vegna þess að málið hefði verið lagt fram of seint.

Sérstakur afrýjunardómstóll hefur nú úrskurðað að fjölskyldan hefði ekki haft neina ástæðu til að gruna að hún hafi verið á lífi í frystinum áður en sérfræðivitnisburðurinn kom fram. Málið má því fara fyrir dómstóla.

Hér að neðan má sjá frétt CBS um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×