Erlent

Þjóðernissinnar allsráðandi í Ungverjalandi

Ungverjar eru greinilega upp til  hópa sáttir við þjóðernissinnann Viktor Orban, sem hefur verið forsætisráðherra Ungverjalands síðan 2010.

Flokkur hans, Fidesz, vann yfirburðasigur í þingkosningum í gær, fékk 45 prósent atkvæða og hreinan þingmeirihluta, líklega 133 þingsæti af 199 og þar með rétt svo nægan þingstyrk til að breyta stjórnarskrá landsins að vild.

Árangur Fidesz er í samræmi við skoðanakannanir en góður árangur annars þjóðernissinnaflokks, sem heitir Jobbikk, hefur komið nokkuð á óvart. Jobbikk fékk fjórðung atkvæða, en sá flokkur gengur enn lengra til hægri en Fidesz í þjóðernisstefnu sinni. 

Orban hefur ítrekað sætt gagnrýni, meðal annars af hálfu ráðamanna Evrópusambandsins og ýmissa mannréttindasamtaka, fyrir stjórnarskrárbreytingar og lagabreytingar sem sagðar eru hafa grafið undan lýðræði í landinu.

Orban hefur sömuleiðis verið gagnrýndur fyrir lýðskrumsstefnu og flokkur hans hefur einnig sætt gagnrýni fyrir að hafa alið á andúð á bæði gyðingum og rómafólki.

Þessi gagnrýni hefur greinilega engin áhrif haft á ungverska kjósendur. Orban sagði í ræðu sinni í gærkvöld, þar sem hann lýsti yfir sigri, að hvergi í aðildarlöndum ESB njóti einn stjórnmálaflokkur meira fylgis en Fidesz í Ungverjalandi.

Orban lofaði í kosningabaráttunni að fjölga störfum í landinu, ganga hart fram gegn glæpum og efna til kosninga um aðildina að Evrópusambandinu.

Ungverjaland gekk í Evrópusambandið árið 2004, en samskipti Orban við ESB hafa jafnan verið stirð.

Fidesz náði góðum árangri í kosningum til Evrópuþingsins árið 2009, hlaut þá 56 prósent atkvæða með þeim árangri að 14 ar 22 þingsætum Ungverjalands komu í hans hlut.

Fastlega er því búist við að Fidesz nái góðum árangri í Evrópuþingskosningunum sem haldnar verða í vor.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×