Erlent

Risastór rotta hræddi sænska fjölskyldu

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Risarottan var tæpir 40 sentímetrar að lengd.
Risarottan var tæpir 40 sentímetrar að lengd.

Heimili sænsku Bengtson-Korsås fjölskyldunnar, í Stokkhólmi, fór nánast á hvolf þegar risastór rotta birtist í eldhúsinu. Heimilskötturinn Enok var búinn að vera á vappi í kringum uppþvottavélina á heimilinu og bjuggust fjölskyldumeðlimir við því að mús leyndist þar á bakvið.

Þegar Signe Bengtson-Korsås ætlaði að setja rusl í ruslatunnuna sá hún rottuna, sem var 39,5 sentímetra löng - og þá er halinn ekki talinn með.

„Ég stökk upp á borð,“ segir Signe í samtali við Aftonbladet.

Hún hringdi í eiginmann sinn sem var staddur í útilegu ásamt syni þeirra. „Ég hélt að hún væri að ýkja þegar hún sagði mér hversu stór rottan væri. Svona eins og þegar krakkar sjá köngulær og halda að þær séu stærri en þær eru,“ segir Erik Bengtson-Korsås.

Kötturinn hörfaði
Signe reyndi eins og hún gat að hræða rottuna, sem byrjaði að rölta út úr skápnum þar sem ruslatunnan var geymd. Rottan virtist eflast við tilraunir Signe og barna hennar og rölti hægt og rólega út á eldhúsgólfið.

Kötturinn Enok hörfaði, var hræddur við þessa stóru rottu.

Að lokum rölti rottan aftur inn í holu sína.

Gildrum komið upp
Signe hafði samband við meindýraeyði sem kom samstundis upp nokkrum risastórum gildrum. Seinna sama dag heyrðist smellur – rottan stóra festist í einni gildrunni. En þegar meindýraeyðirinn ætlaði að sækja rottuna kom í ljós að gildran hafði ekki virkað sem skyldi. Rottan hafði einfaldlega tekið gildruna með sér – gekk með hana um hálsinn.

Síðar fannst rottan við holuna sína. Gildran hafði þrengst eftir að rottan festi hana á leið sinni í holuna sína.

Nagaði sig í gegnum steypu
Rottan stóra hafði nagað sig í gegnum spýtur og steypu í leið sinni inn á eldhúsgólf Bengtson-Korsås fjölskyldunnar.

Hún hafði nagað í sundur vatnsleiðslur og fleira og ollið töluverðum skemmdum.

Fjölskyldunni var að sjálfsögðu mjög brugðið við þessa uppákomu.

„Þetta er stærsta rotta sem ég hef nokkru sinni séð,“ útskýrir Erik Bengtson-Korsås.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.