Erlent

Norður-Kórea kallar forseta Suður-Kóreu "blaðrandi smábóndakonu"

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar
Park Gyun-Hye, forseti Suður-Kóreu stóð undir árásum frá nágrannaríki sínu.
Park Gyun-Hye, forseti Suður-Kóreu stóð undir árásum frá nágrannaríki sínu. Vísir/AP
Norður-Kórea gaf út yfirlýsingu þar sem ráðist er að Park Geun-Hye, forseta Suður-Kóreu á heiftarlegan hátt. Park er sökuð um að hafa rofið friðhelgi milli norðurs og suðurs, og kölluð blaðrandi smábóndakona. Þetta kemur fram í frétt AFP um málið.

Yfirlýsingin vísaði til ræðu sem Park hélt á kjarnorkumálaráðstefnu í Haag í Hollandi á dögunum, en hún sagðist hafa áhyggjur af því að kjarnorkuefni Norður-Kóreumanna kæmust í hendur hryðjuverkamanna.

Einnig talaði Park um að hætta stafaði af kjarnorkusamstæðu Norður-Kóreu í Yongbyong, og sagðist óttast að slys í líkingu við það sem atvikaðist í Chernobyl fyrir 28 árum gæti átt sér stað, en þá kviknaði í sóvéskum kjarnakljúf með gífurlega skæðum afleiðingum.

Talsmaður norður-kóreskrar nefndar sem vinnur að friðsamlegri sameiningu Kóreuskaga sagði ummæli Park fótumtroða samkomulag sem ríkt hefur milli nágrannaríkjanna í tæpan mánuð eftir að þau sammæltust um að hætta að rægja hvort annað.

„Hún þarf að gera sér grein fyrir því að hún er ekki lengur smábóndakona blaðrandi við sjálfa sig úti í horni heldur handhafi forsetavalds," sagði í yfirlýsingu nefndarinnar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×