Erlent

Sýrlendingar aftur kallaðir til viðræðna í Sviss

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Lakhtar Brahimi, erindreki Sameinuðu þjóðanna og Arababandalagsins gagnvart Sýrlandi.
Lakhtar Brahimi, erindreki Sameinuðu þjóðanna og Arababandalagsins gagnvart Sýrlandi. Nordicphotos/AFP
Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, ætlar að freista þess að fá öryggisráð Sameinuðu þjóðanna til þess að tryggja öruggan aðgang hjálparastofnana að átakasvæðum í Sýrlandi.

Til þess þyrfti samþykki bæði Rússa og Kínverja, sem til þessa hafa ekki viljað taka þátt í ályktunum um borgarastríðið í Sýrlandi.

Í dag hófust svo aftur viðræður í Genf þar sem reynt verður að fá bæði stjórn og stjórnarandstæðinga frá Sýrlandi til þess að semja um lausn á deilum sínum.

Átökin í Sýrlandi hafa kostað eitthvað á annað hundrað þúsund manns lífið frá því þau hófust, fyrir nærri þremur árum.

Einnig hafa nærri tíu milljónir manna hrakist að heiman, svo flóttamannavandinn er orðinn afar erfiður viðureignar, bæði innan landamæra Sýrlands og í nágrannalöndunum.

Í gær tókst um sex hundruð manns að komast út úr borginni Homs, þar sem fólkið hefur verið innikróað vegna átaka í meira en ár. Samið hafði verið um þriggja daga vopnahlé í borginni til þess að gefa bæði hjálparstofnunum færi á að koma nauðsynjum til íbúanna, og íbúunum færi á að komast burt.

Sýrlensk stjórnvöld viðurkenna að sumir þeirra, sem fóru frá borginni í gær, hafi verið handteknir eftir að þeir voru komnir út fyrir borgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×