Erlent

Ekki var talið nauðsynlegt að salta veginn

Stefán Árni Pálsson skrifar
Norska vegagerðin tók þá ákvörðun fyrr um kvöldið að salta ekki veginn í gærkvöldi.
Norska vegagerðin tók þá ákvörðun fyrr um kvöldið að salta ekki veginn í gærkvöldi. mynd / skjáskot af nrk
Samkvæmt lögregluyfirvöldum í Noregi var gríðarlega hálka á veginum þar sem þrír létust í bílslysi seint í gærkvöldi. Norska vegagerðin tók þá ákvörðun fyrr um kvöldið að salta ekki veginn þar sem ekkert benti til þess að hitastigið myndi lækka eins mikið og raun bar vitni.

„Það voru góðar aðstæður fyrir ökutæki á veginum fyrr um kvöldið og því var ekki talið nauðsynlegt að salta á svæðinu,“ segir Hans Jan Håkonsen, deildarstjóri hjá norsku vegagerðinni, í samtal við NRK.

Samkvæmt Håkonsen var hitastigið við jörð mínus átta gráður en lofthiti við frostmark. Þegar tók að rigna myndaðist mikil hálka á veginum. Að hans sögn hafði ekki verið saltað á þeim kafla sem slysið átti sér stað.

„Það var mat starfsmanna vegagerðarinnar að ekki væri nauðsynlegt að salta veginn og treystum við ávallt þeirra dómgreind.“

Tor Heimdahl, talsmaður norska malbikunarfyrirtækisins NCC Roads, hefur svipaða sögu að segja. 

„Vegurinn var þurr og  góðar aðstæður fyrr um kvöldið. Hitastigið virðist hafa lækkað hratt sem olli því að mikil hálka varð á veginum,“ segir Heimdahl.

„Það var enginn ástæða til þess að salta veginn fyrr um kvöldið og ekkert benti til þess að hitastigið myndi breytast.“

Þrír létust í hörðum árekstri rútu og flutningabíls í Sokna í Noregi seint í gærkvöldi og ellefu slösuðust. Ökumaður flutningabílsins er í norskum miðlum sagður vera íslendingur, fæddur árið 1954.

Norska ríkisútvarpið hafði eftir lögregluyfirvöldum að Íslendingurinn hefði venju samkvæmt verið sviptur ökuréttindum þar sem um alvarlegt slys hefði verið að ræða. Þá var hann grunaður um gáleysislegan akstur. Rannsókn málsins stendur yfir.


Tengdar fréttir

Þrír létust í árekstri í Noregi - Íslendingur grunaður um gáleysislegan akstur

Þrír létust í hörðum árekstri rútu og flutningabíls í Sokna í Noregi seint í gærkvöldi. Ellefu er slasaðir en ökumaður flutningabílsins er í norskum miðlum sagður vera íslendingur, fæddur árið 1954. Hann er grunaður um gáleysilegan akstur og hefur verið yfirheyrður af lögreglu, að því er greint er frá á vefsíðu norska ríkisútvarpsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×