Erlent

Nunna á níræðisaldri dæmd í fangelsi í Bandaríkjunum

Systir Megan Rice, ásamt vitorðsmönnum sínum.
Systir Megan Rice, ásamt vitorðsmönnum sínum.
Áttatíu og fjögurra ára gömul bandarísk nunna hefur verið dæmd í þriggja ára fangelsi fyrir að brjótast inn á kjarnorkustöð í Tennessee sem framleiðir og geymir úran.

Nunnan, systir Megan Rice braust inn á stöðina sumarið 2012 ásamt tveimur öðrum til þess að mótmæla kjarnavopnum og þurftu þau að hafa fremur lítið fyrir því að komast inn. Tvímenningarnir sem voru með henni fengu þyngri dóma, eða rúm fimm ár.

Systir Rice hafði hvatt dómarann til þess að sýna henni enga linkind og sagðist hún aðeins sjá eftir því að hafa ekki gripið til aðgerða fyrr á ævinni. Fólkið var sakfellt fyrir að valda skemmdum á eignum bandarísku ríkisstjórnarinnar en þau hefðu getað átt yfir höfði sér allt að tuttugu ára fangelsi.

Málið vakti mikla athygli á sínum tíma en hinir öldnu aðgerðarsinnar, en félagar nunnunnar eru á sextugs- og sjötugsaldri, virðast ekki hafa haft mikið fyrir því að komast inn á svæðið.

Þau höfðu þó ekki annað meðferðis en öflugar víraklippur sem voru notaðar til þess að klippa göt á einar þrjár girðingar á leið þeirra að stöðinni. Þau komust rúman kílómetra inn á hið harðlokaða svæði áður en þau voru handtekin en þá höfðu þau verið þar í nokkrar klukkustundir.

Síðan þetta gerðist hafa yfirvöld hert öryggisgæsluna á svæðinu og öðrum slíkum vítt og breytt um Bandaríkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×