Erlent

Byggingar loga í Bosníu

Bjarki Ármannsson skrifar
Mörg þúsund manns tóku þátt í mótmælum í Sarajevo í dag.
Mörg þúsund manns tóku þátt í mótmælum í Sarajevo í dag. Vísir/AFP
Mótmælendur í Bosníu-Hersegóvínu kveiktu í dag í tveimur byggingum hins opinbera en ofbeldisfull átök hafa nú staðið yfir í landinu í þrjá daga. Að minnsta kosti hundrað manns hafa slasast í höfuðborginni Sarajevo í dag.

Meðal annars var kveikt í forsetabyggingunni og svaraði lögregla með því að beita táragasi og gúmmískotum gegn mótmælendum. Frá þessu er greint á vef BBC, sem kallar þetta verstu átökin í landinu síðan stríði lauk þar árið 1995. Ósætti ríkir meðal almennings yfir slæmu efnahagsástandi landsins, en þar ríkir nú um 40% atvinnuleysi.

Átökin hófust fyrr í vikunni í bænum Tuzla í norðurhluta Bosníu. Mótmæli yfir lokun og sölu verksmiðja sem höfðu séð stórum hluta íbúanna fyrir vinnu undu þá upp á sig með þeim afleiðingum að 130 manns, aðallega lögreglumenn, slösuðust í bænum í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×