Erlent

Líkir ESB við Sovétríkin

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Marine Le Pen, leiðtogi frönsku Þjóðernisfylkingarinnar.
Marine Le Pen, leiðtogi frönsku Þjóðernisfylkingarinnar. Nordicphotos/AFP
Marine Le Pen vill ólm frá Nigel Farage í lið með sér gegn „Evrópusovétríkjunum” og rífa niður „Brusselmúrinn”. Farage vill hins vegar ekkert hafa með hana að gera, og segir flokk sinn lausan við alla kynþáttahyggju.

Le Pen er leiðtogi frönsku Þjóðernisfylkingarinnar en Farage er leiðtogi breska Sjálfstæðisflokksins. Bæði hafa gagnrýnt Evrópusambandið harðlega.

„Þeir segjast ekki vera sammála okkur. Kjaftæði,” segir Le Pen, að því er fram kemur í breska dagblaðinu The Independent. „Gott og vel, við höfum ekki sömu stefnu í efnahagsmálum, en þeir eru sammála okkur um Evrópusambandið og innflytjendamál: Allir þurfa að verja landamæri sín, Evrópusovétríkin verða að hrynja, allir þurfa að hafa sinn eigin gjaldmiðil, sína efnahagsstefnu og taka ákvarðanir á heimavelli.”

Nigel Farage, leiðtogi breska Sjálfstæðisflokksins.Nordicphotos/AFP
Hún segir einnig nauðsynlegt að „rífa niður Brusselmúrinn,” rétt eins og Berlínarmúrinn féll á sínum tíma.

Le Pen hefur tekið höndum saman við Geert Wilders, leiðtoga Frelsisflokksins í Hollandi, og þau hyggjast stofna nýtt flokkabandalag hægri þjóðernisflokka á Evrópuþinginu í vor. Farage hefur hins vegar ítrekað hafnað aðild að þessu væntanlega bandalagi.

„Ég er viss um að nýtt nýtt bandalag efasemdarflokka um Evrópusambandið, með Marine Le Pen og Geert Wilders og fleirum, verði að veruleika, en breski Sjálfstæðisflokkurinn verður ekki þátttakandi í því,” er haft eftir Farage í The Independent. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×