Innlent

Flúormengun veldur bónda áhyggjum

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Sigurður Baldursson bóndi hefur áhyggjur af flúormengun í Reyðarfirði.
Sigurður Baldursson bóndi hefur áhyggjur af flúormengun í Reyðarfirði.
„Að sjálfsögðu veldur þetta ástand okkur miklum áhyggjum. Það er ekki komið í ljós hvort hættuástand geti skapast,“ segir Sigurður Baldursson bóndi sem á bæinn Sléttu sem er staðsett í grennd við álverið á Reyðarfirði. Við mælingar á flúormengun á jörð Sigurðar og sauðfé hans, hefur komið í ljós að flúormagnið er rétt undir hættumörkum.

Sigurður segir fyrirtækið hafa lofað allt öðru þegar álverið var reist. „Mengungarbúnaðurinn átti að vera svo fullkominn. En allt annað hefur komið á daginn. Þeir tjáðu okkur að það væri varla möguleiki að svona myndi fara,“ útskýrir Sigurður.

Hann segir menn frá Alcoa hafa heimsótt sig í gærdag. „Forstjórinn kom hingað og fleiri aðilar. Þeir sátu hérna í um tvo klukkutíma. Við erum að reyna að kortleggja mengunina. Fyrirtækið þarf auðvitað að taka til alvarlegrar skoðunar hvort því takist að takmarka losun flúors,“ segir Sigurður.

„Ef þetta verður til þess að ég verði fyrir einhverjum skaða er þetta mjög alvarlegt mál,“ segir Sigurður að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×