Erlent

Frost mældist í öllum ríkjum Bandaríkjanna

Í Chicago er Michigan vatn ísilagt.
Í Chicago er Michigan vatn ísilagt. MYND/AFP
Frosthörkur eru enn í Bandaríkjunum þótt veðurfræðingar spá því að á næstu dögum fari að hlýna á ný. Í gær gerðist sá einstæði atburður að frost mældist í öllum fimmtíu ríkjum Bandaríkjanna.

Á Hawaí mældist meira að segja sjö stiga frost, þótt það hafi verið í hlíðum stærsta eldfjalls eyjanna. Mesta frostið mældist hinsvegar í bænum Embarass, í Minnesota þar sem mælar sýndu þrjátíu og sjö stiga frost.

Og í hinni suðlægu borg Atlanta, sem oft er raunar kölluð Hotlanta, fór hitastigið heilum tuttugu og sex stigum fyrir neðan meðaltalið á þessum árstíma í borginni. Kuldunum fylgja miklar raskanir á samgöngum og þurfti að aflýsa um 2500 flugferðum í gær.

Kuldakastið setti illilega strik í reikninginn fyrir Robert Vick, fanga sem flúði úr fangelsi í Kentucky á sunnudag. Hann var frelsinu feginn í skamman tíma, eða þangað til frostið, sem mældist tuttugu og níu gráður á hans slóðum, fór að bíta hressilega.

Vick entist aðeins í nokkra klukkutíma á flóttanum þangað til hann fór inn á Mótel í ríkinu og tilkynnti starfsfólkinu að hann vildi gefa sig fram við lögreglu. Hann var síðan kominn í hlýjan klefann að nýju skömmu síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×