Enski boltinn

Falcao tryggði Monaco sigur | Valencia vann Emirates Cup

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sánchez í baráttunni við Ricardo Carvahlo.
Sánchez í baráttunni við Ricardo Carvahlo. Vísir/Getty
Alexis Sánchez lék sinn fyrsta leik í byrjunarliði Arsenal þegar liðið beið lægri hlut fyrir Monaco með einu marki gegn engu á Emirates Cup sem fór fram um helgina á heimavelli Lundúnaliðsins, Emirates Stadium.

Kólumbíumaðurinn Falcao skoraði eina mark leiksins á 36. mínútu með skalla eftir aukaspyrnu João Moutinho.

Arsenal endaði því í öðru sæti mótsins með átta stig, einu stigi minna en Valencia sem hrósaði sigri á mótinu. Spænska liðið vann Benfica með þremur mörkum gegn einu í fyrri leik dagsins.

Derley kom portúgölsku meisturunum yfir strax á 2. mínútu, en José Gaya, Pablo Piatti og Anders Guardado tryggðu Valencia sigurinn með þremur mörkum á ellefu mínútna kafla í seinni hálfleik.

Byrjunarlið Arsenal gegn Monaco var þannig skipað:

Wojciech Szczesny; Mathieu Debuchy, Calum Chambers, Laurent Koscielny, Nacho Monreal; Mikel Artea, Jack Wilshere; Alexis Sánchez, Aaron Ramsey, Santi Cazorla; Oliver Giroud.

Alex Oxlade-Chamberlain, Ignasi Miquel, Mathieu Flamini, Hector Bellerin, Chuba Akpom og Gedion Zelalem komu inn á sem varamenn í seinni hálfleik.

Lokastaðan á mótinu (þrjú stig fást fyrir sigur, eitt fyrir jafntefli og eitt fyrir hvert skorað mark):

1. Valencia - 9 stig (5-3 (markatala))

2. Arsenal - 8 stig (5-2)

3. Monaco - 7 stig (3-2)

4. Benfica - 2 stig (2-8)


Tengdar fréttir

Ferna hjá Sanogo

Yaya Sanogo fór á kostum þegar Arsenal lagði Benfica á Emirates Cup í kvöld.

Falcao að ná sér af meiðslunum

Falcao er í óða önn að verða klár og reiknar þjálfari Monaco með honum á Emirates Cup um næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×