Veigar Páll Gunnarsson, framherji Stjörnunnar í Pepsi-deild karla í fótbolta, verður líklega ekki með liðinu í leiknum gegn pólska liðinu Lech Poznan í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar á fimmtudagskvöldið.
„Það eru spurningamerki með Veigar og Garðar eins og staðan er núna. Ég reikna síður með að Veigar verði með, en við verðum að meta þetta betur á morgun,“ segir RúnarPáll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, við Vísi.
Veigar Páll hefur átt í vandræðum með bakmeiðsli og þá fékk hann hnút í lærið gegn Motherwell sem heldur honum frá keppni núna. „Hann verður að æfa eitthvað drengurinn annars halda meiðslin bara áfram,“ segir Rúnar.
Garðar Jóhannsson hefur lítið verið með Stjörnuliðinu í sumar, en hann kom þó inn á gegn ÍBV á sunnudaginn og skoraði fallegt mark í 2-0 sigurleik Garðbæinga.
„Þær mínútur fóru ágætlega í Garðar, en svo fékk hann aðeins aftur í lærið á æfingu í gær þannig það er spurning hvort hann verði klár,“ segir Rúnar Páll.
Ingvar Jónsson, markvörður liðsins, meiddist á móti Motherwell á fimmtudaginn í síðustu viku og var ekki með gegn Eyjamönnum á sunnudaginn, en hann verður klár í leikinn gegn pólska stórliðinu.
„Ingvar er heill. Það var ekkert alvarlegt að hjá honum, heldur bara smá eymsli aftan í hnésbótinni. Hann þurfti bara nokkra daga til að jafna sig,“ segir Rúnar Páll Sigmundsson.
Ólíklegt að Veigar verði með gegn Poznan
Tómas Þór Þórðarson skrifar

Mest lesið


Frá Midtjylland til Newcastle
Fótbolti






Szczesny ekki hættur enn
Fótbolti

Vörn Grindavíkur áfram hriplek
Fótbolti
