Hanna Birna Kristjánsdóttir, ráðherra vegamála, sagði í þingræðu fyrir þremur vikum að vegagerð um Teigsskóg væri í stjórnsýsluflækju og sagði sérlög koma til greina til að höggva á hnútinn. Ákveðið var að kanna hvernig einfaldast væri að greiða úr flækjunni og voru þrír kostir til skoðunar, að sögn Hreins Haraldssonar vegamálastjóra; endurupptaka á fyrra umhverfismati, sérstök lagasetning frá Alþingi og svo loks að Vegagerðin kærði þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar í síðasta mánuði að hafna nýju umhverfismati.
„Það hefur verið ákveðið núna að fara í svokallaða endurupptökuleið,” sagði Hreinn. Þetta þýðir að óskað verður eftir því við Skipulagsstofnun að átta ára gamalt umhverfismat verði endurskoðað, vegna nýrrar veglínu sem Vegagerðin leggur til um Teigsskóg. En hvað tæki langan tíma að fá niðurstöðu?
Vegamálastjóri segir að lögfræðingar telji að það taki eitt til eitt og hálft ár þar til unnt verði að sækja um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórnar. En hvenær gætu framkvæmdir þá hafist?
Ef allt gengur eftir, á árinu 2016, svarar Hreinn. Hann tekur fram að eftir sé að hanna veginn og bjóða út verkið, hver svo sem endanleg veglína verður.

-Verklok kannski 2019?
„Já. Ég hugsa að við myndum þykjast góð ef það væri kominn þarna endanlegur opinn vegur á því ári,” sagði Hreinn Haraldsson.