Innlent

Fyrsti blindi nemandinn nemur við Bifröst

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mitchel Snel ásamt Karl Eiríkssyni.
Mitchel Snel ásamt Karl Eiríkssyni. Mynd/Háskólinn á Bifröst
Einn af skiptinemunum við Háskólann á Bifröst á haustönn 2014 er Mitchel Snel frá The Hague University í Hollandi. Það væri ekki í frásögur færandi nema fyrir þá staðreynd að Mitchel er blindur og er hann fyrsti blindi nemandinn til að stunda nám við Háskólann á Bifröst.

Snel ferðaðist frá Hollandi einn síns liðs og er því mjög sjálfstæður. Hann lætur fötlun sína ekki stöðva sig og er staðráðinn í að láta sjónina ekki aftra sér á nokkurn hátt. Mitchel notar tæknina mikið til að aðstoða sig í náminu og er t.a.m. með talgervil sem aðstoðar hann við yfirferð á námsefninu að því er segir í frétt skólans.

Aðspurður út í hans ákvörðun um að koma til Íslands í skiptinám hafði hann þetta að segja:

 

„Ég hef ferðast víða um Evrópu en fyrir mig er Ísland einstakur staður til að heimsækja. Ég hef mikinn áhuga á jöklum og eldfjöllum og svo er Ísland mjög framarlega hvað varðar tækni, það skipti mig mjög miklu máli þegar ég tók ákvörðun um áfangastað,“ segir Snel.

Hann segist hafa fengið mjög góðar viðtökur hér á landi og fólk sé viljugt til að hjálpa ef þörf sé á.

„Ég valdi Bifröst vegna stærðar skólans sem hentar mér mjög vel, þar sem ég get gengið stuttar vegalengdir í allt sem ég þarf. Ég er vanur því að búa í stórborg og í skólanum mínum eru 28.000 nemendur svo breytingin er töluverð“.

Að sögn Karls Eiríkssonar, alþjóðafulltrúa á Bifröst, var Mitchel tilnefndur með góðum fyrirvara þannig að hægt var að undirbúa komu hans.

„Mitchel er framúrskarandi nemandi sem hefur náð að aðlagast samfélaginu hér á Bifröst mjög vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×