„Þetta er fullkomin byrjun og nú er bara að nýta það og taka það með sér inn í þennan erfiða leik á móti Hollandi,“ sagði Hannes Þór Halldórsson, markvörður.
Theódór Elmar Bjarnason og Ari Freyr Skúlason hafa skilað bakvarðarstöðunum með miklum sóma en þeir eru vanalega miðjumenn. „Við erum með marga leikmenn sem eru vanalega miðjumenn. Það er ég, Theódór Elmar, Emil Hallfreðs, Birkir Bjarna og svo auðvitað Aron og Gylfi. Það þýðir kannski að við erum vel spilandi lið og getum leyst erfiðar stöður,“ sagði Ari Freyr Skúlason. Ari Freyr kom inn í vinstri bakvörðinn í síðustu keppni og nú leikur Theódór Elmar það eftir.

„Ég er búinn að vera sáttur við mína frammistöðu,“ sagði Theódór Elmar. „Ég er ekki vanur því að spila bakvörðinn og þetta er aðeins öðru vísi fókus. Það hefur gengið vel og ég er líka með Kára og Ragga sem eru við hliðina á mér og að tala við mig. Þeir hafa leiðbeint mér vel þannig að það hefur verið auðvelt að aðlagast.“
„Ef við ætlum að enda í fyrstu tveimur sætunum þá getum við ekki verið að sætta okkur við tap þótt að þeir séu besta lið í heimi. Ef við verðum skynsamir á morgun og allir ná sínum toppleik eins og á móti Tyrkjum þá getum við náð fínum úrslitum,“ sagði Theódór Elmar. Hollendingar eru þegar búnir að tapa einum leik og pressan er mun meiri á þeim.
„Þeir líta á Ísland sem lið sem þeir eiga að vinna. Þeir munu hins vegar fá erfiðan leik og þetta er mjög óþægilegur leikur fyrir þá því kröfurnar á þá eru að vinna okkur og helst nokkuð auðveldlega,“ sagði Hannes.

Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir markatölu íslenska landsliðsins eftir tvo fyrstu leikina í undankeppni EM og HM síðan að íslenska landsliðið tók fyrst þátt í riðlakeppni fyrir HM 1974.
