Innlent

Hlaupið skilaði tveimur La-Z-Boy-um til skurðdeildar

Atli Ísleifsson skrifar
Faðir þeirra Helgu og Kolbrúnar, Jón Þráinn Magnússon, var sjúklingur á deildinni í nokkra mánuði á árinu 2013.
Faðir þeirra Helgu og Kolbrúnar, Jón Þráinn Magnússon, var sjúklingur á deildinni í nokkra mánuði á árinu 2013. Mynd/Landspítalinn
Systurnar Helga og Kolbrún Jónsdætur hafa gefið almennri skurðdeild 12G á Landspítala Hringbraut tvo La-Z-Boy hvíldarstóla að gjöf.

Faðir þeirra Helgu og Kolbrúnar, Jón Þráinn Magnússon, var sjúklingur á deildinni í nokkra mánuði á árinu 2013 og söfnuðu þær systur fyrir stólunum með því að fara hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar í nafni föður síns.

Systurnar vildu þannig þakka fyrir dvölina með því að færa sjúklingum á deildinni eitthvað sem kæmi að góðu gagni og urðu hvíldarstólarnir fyrir valinu. Aðeins einn slíkur var fyrir á deildinni.

„Svona stólar koma sér vel með því að fara með þá inn á stofur og gefa sjúklingum kost á að sitja í þeim og hvíla sig þannig frá langri rúmlegu,“ segir í tilkynningu frá Landspítalanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×