Erlent

Hindruðu flutning á eggjum til verslana

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Norskir bændur vilja miklu hærri styrki en stjórnvöld leggja til.
Norskir bændur vilja miklu hærri styrki en stjórnvöld leggja til. Vísir/Getty
Norskir bændur fjarlægðu í gærmorgun vegatálma sem þeir höfðu sett upp til að hindra flutninga á eggjum til verslana víða um Noreg á fimmtudag. Norðmenn geta þess vegna bakað tertur og annað bakkelsi í tilefni þjóðhátíðardagsins í dag, 17. maí.

Samtök bænda hafa efnt til mótmæla með ýmsum aðgerðum frá því að þau slitu á þriðjudaginn viðræðum við stjórnvöld um ríkisstyrki sem að mati bænda eru alltof óhagstæðir. Samkvæmt frétt á vef Aftenposten bjóða stjórnvöld bændum hækkun sem er einungis einn tíundi af kröfum þeirra um nýjan landbúnaðarsamning. Hvorki norsku bændasamtökin né samtök smábænda ætla að ganga að samningaborðinu á ný fyrr en stjórnvöld koma með nýtt tilboð.

Sylvi Listhaug landbúnaðarráðherra, sem er í Framfaraflokknum, vill að stærri býli fái meira af ríkisstyrkjunum, einkum þau sem eru með mjólkurframleiðslu. Því eru bændur mótfallnir. Þeir óttast meiri miðstýringu og tala um „iðnaðarlandbúnað“. Hætta sé á að ýmsir bændur verði að bregða búi vegna þess.

Bændur eru sagðir leggja traust sitt á að þingið komi þeim til bjargar og beita Vinstri flokkinn og Kristilega þjóðarflokkinn þrýstingi með háværum mótmælum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×