Hér má sjá samantekt yfir vinsælustu fréttir vikunnar.

Mótmælin á Austurvelli voru í huga margra á mánudag. Á fimmta þúsund mótmæltu ríkisstjórninni en Svavar Knútur tónlistarmaður og einn skipuleggjanda mótmælanna vakti ekki síður athygli.
„Fólk er reitt og sárt. Þessi ríkisstjórnin misbýður ákveðnum grunngildum trekk í trekk. Ofan á það sýnir hún eintóman skæting og leiðindi og dólgshátt þegar hún fær á sig gagnrýni,“ sagði Svavar Knútur í samtali við Vísi.
Grunur um ebólusmit á Keflavíkurflugvelli
Það ætlaði allt um koll að keyra þegar almannavarnir sendu frá sér tilkynningu þess efnis að grunur hefði leikið á að ebólusmitaður einstaklingur hefði komið til landsins. Viðbragðsáætlun var virkjuð samstundis og flugvélinni lagt á flugverndarsvæði á Keflavíkurflugvelli. Íslenskur læknir fór um borð í vélina sem staðfesti að ekki væri um ebólu að ræða.
Svarthvíta hetjan á hrekkjavöku
Betur fór en á horfðist þegar ungri konu, Jónu Guðbjörgu Guðmundsdóttur, var bjargað af ókunnugum manni í miðbæ Reykjavíkur um síðastliðna helgi.
„Eftir síðasta bjórinn sem ég fékk mér fór mig að svima. Ég veit ekki af hverju, kannski var það of mikið áfengi, kannski var ég ekki búinn að sofa nóg en kannski var búið að setja eitthvað út í,“ sagði Jóna í samtali við Vísi. Hún sagði minningarnar frá kvöldinu gloppóttar en mundi þó að maðurinn sem kom henni til bjargar hafi verið málaður svartur og hvítur í framan í tilefni hrekkjavökunnar. Hann gaf henni að borða og kom henni til bróður síns og er hún manninum afar þakklát.
Hamingjusama hóran
Fátt vakti jafn mikla athygli og þátturinn Brestir sem sýndur var á Stöð 2 á mánudag. Þátturinn fjallaði um 22 ára íslenska vændiskonu sem sagði sögu sína og upplifun hennar af vændi. Hún sagðist ekki gera þetta af nauðsyn heldur vegna þess að henni finnist þetta spennandi. „Mér finnst þetta spennandi og skemmtilegt. Og ef ég er dugleg þá ég fæ mjög vel borgað fyrir þetta. Og það er rosalega gaman fyrir mig og fjölskyldu mína. Af hverju ætti einhverjum að blöskra þó svo að ég sé ekki í skrifstofu starfi frá níu til fimm?“ sagði konan.

Átján konum á besta aldri var sagt upp í Stjórnarráði Íslands. Málið varð harðlega gagnrýnt þar sem erfitt er fyrir fólk á þessum aldri að finna annað starf. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagðist þó ekki hafa vitað af uppsögnunum fyrr en hann las um það í fjölmiðlum. Engar uppsagnir hafi verið í Stjórnarráðinu sjálfu, þar sem hann starfar. Öll ráðuneyti tilheyra þó Stjórnarráðinu en upplýsingar um hvaða ráðuneytum konurnar störfuðu í liggja ekki fyrir.

Anna Guðný Egilsdóttir varð fyrir því óhappi týna giftingarhringnum sínum í blóðsmörskeppi þegar hún var að taka slátur ásamt vinkonu sinni og móður fyrir ári síðan. Hún hafði þó heppnina með sér og fann hann í keppnum fyrir um það bil ári síðan. „Sagan segir að huldufólk fái hlutina lánaða og skili þeim stundum aftur, jafnvel á allt annan stað en þar sem það tók hlutinn. Þá á huldufólk að nota hringa sem það fær lánað við sérstakar manndómsvígslur en skili þeim svo aftur,“ sagði Anna sem segir það skemmtilegri tilhugsun en að hringurinn hafi einungis verið allan tímann inni í keppnum.

Síðast en ekki síst. Það sem við flest elskum. Kokteilsósa. „Við getum allavega slegið því föstu strax, sem flestir vissu nú líklega fyrir, að kokkteilsósan er ekki íslensk uppfinning og þúsund eyja sósa er ekki orðin til út frá íslenskri kokkteilsósu. Fremur er það öfugt,“ skrifar Nanna Rögnvaldardóttir, matgæðingur og rithöfundur á bloggsíðu sína. Vísar hún þar með í ummæli Úlfars Eysteinssonar matreiðslumeistara sem á dögunum fullyrti að kokteilsósan væri alíslensk, fundin upp af Magnúsi Björnssyni á Aski.