Erlent

Rodman aftur til Norður-Kóreu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Rodman umkringdur fjölmiðlafólki á flugvelli í Kína, á leiðinni til Norður-Kóreu.
Rodman umkringdur fjölmiðlafólki á flugvelli í Kína, á leiðinni til Norður-Kóreu. Nordicphotos/AFP
„Mig langar bara að hitta vin minn Kim, marskálkinn, og stofna körfuboltadeild þarna eða eitthvað,” sagði bandaríski körfuboltakappinn Dennis Rodman, þegar hann hélt til Norður-Kóreu í morgun.

Þetta er í annað sinn sem hann fer til að heimsækja Kim Jong Un, hinn unga leiðtoga Norður-Kóreu.

Hann segir ekkert um það hvort hann ætli að reyna að fá bandaríska trúboðann Kenneth Bae lausan úr haldi Norður-Kóreumanna. Bandaríkjastjórn hefur reynt að fá Bae látinn lausan, en fyrir fáum dögum hafnaði Norður-Kóreustjórn því að sendimaður frá Bandaríkjunum kæmi þangað til að leita lausna á þessu máli.

„Ég ætla ekkert að tala um það,” hefur AP fréttastofan eftir Rodman. „Ég er bara að fara þangað til að skemmta mér og reyna að brúa bilið á milli Bandaríkjamanna og Norður-Kóreumanna. Bara svo fólk í Bandaríkjunum sjái að það er ekkert slæmt að fara til Norður-Kóreu að skemmta sér og hitta nýtt fólk.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×