Enn brenna eldar í Nýja Suður Wales í Ástralíu og í nótt fórst flugvél sem var að berjast við eldinn með því að hella á hann vatni. Flugmaður vélarinnar lést samstundis en vélin hrapaði nálægt borginni Ulladulla, suður af Sidney.
Ástralski herinn situr nú undir sí-aukinni gagnrýni vegna þess að einn stærsti eldurinn sem brennur í fylkinu kviknaði á heræfingu þar sem verið var að skjóta úr sprengjuvörpum.
Varnarmálaráðherra landsins segir að herinn hafi ekki ætlað sér að kveikja eldinn en borgarstjórinn í bænum Blue Mountains, sem hefur orðið einna verst úti, segir að herinn hefði átt að vita betur, enda miklir þurrkar og sterkur vindur á svæðinu þar sem heræfingin var haldin.
Flugvél fórst við slökkvistarf í Ástralíu
