Erlent

Erkiklerkurinn mun ráða áfram

Á kjörstað Þessar konur mættu til að nýta kosningarétt sinn. Kosningaþátttaka var nokkuð góð og þurfti meðal annars að lengja opnunartíma kjörstaða víða.Fréttablaðið/AP
Á kjörstað Þessar konur mættu til að nýta kosningarétt sinn. Kosningaþátttaka var nokkuð góð og þurfti meðal annars að lengja opnunartíma kjörstaða víða.Fréttablaðið/AP
Íranar gengu að kjörborðinu í gær til að velja sér forseta. Ekki er þess að vænta að eftirmaður Mamúds Amadínedjad á forsetastóli muni breyta miklu í stefnu eða stjórn landsins þar sem allir sex frambjóðendurnir eru taldir vera þóknanlegir Alí Kamení erkiklerki sem fer þrátt fyrir allt með öll völd í ríkinu.

Helstu kosningamál voru kjarnorkuáætlun Írans, sem eru að vísu á hendi Kamenís, en refsiaðgerðir vesturveldanna henni tengdar, hafa valdið miklum efnahagserfiðleikum í landinu.

Þeir fáu umbótasinnar sem hugðu á framboð voru settir út af kjörskrá af mismunandi ástæðum. Meðal annars var Rafsanjaní, fyrrverandi forseta, bannað að bjóða sig fram sökum aldurs.

Rafsanjaní styður þó Hasan Rohaní, sem þykir einna frjálslyndastur, en helsti harðlínumaðurinn er Saíd Jalílí.

Fyrstu tölur lágu ekki fyrir þegar blaðið fór í prentun, en talið var líklegt að fyrrnefndir frambjóðendur yrðu efstir og kosið yrði milli þeirra í annarri umferð eftir viku. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×