Erlent

Lögðu undir sig kjarnorkuver

Guðsteinn Bjarnason skrifar
"Tricastin kjarnorkuslys. Forseti hamfaranna?” stendur á myndinni sem varpað er á vegg kjarnorkuversins.
"Tricastin kjarnorkuslys. Forseti hamfaranna?” stendur á myndinni sem varpað er á vegg kjarnorkuversins. Mynd/AP
Um 30 félagar úr Greenpeace réðust inn á lóð kjarnorkuversins Tricastin í sunnanverðu Frakklandi nú árla morguns. 

Aðgerðir þeirra eru vandræðalegar fyrir frönsk stjórnvöld, sem hafa lagt mikla áherslu á að sýna fram á að kjarnorkuver séu örugg. 

Flestir Greenpeace-liðanna hafa verið handteknir, og frönsk stjórnvöld sendu frá sér yfirlýsingu þar sem segir að öryggi kjarnorkuversins hafi aldrei verið í hættu.

Aðgerðasinnarnir vörpuðu mynd úr myndbandi upp á vegg kjarnorkuversins, þar sem á stóð: „Tricistin kjarnorkuslys. Forseti hamfaranna?” ásamt mynd af Francois Hollande Frakklandsforseta. Síðan sást myndast stór sprunga í vegg byggingarinnar.

Frakkland er mjög háð kjarnorku. Um 80 prósent af allri raforku landsmanna kemur úr kjarnorkuverum.

Árið 2008 urðu nokkur óhöpp í Tricastin-kjarnorkuverinu. Meðal annars lak auðgað úran út í tvær ár í nágrenninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×