Erlent

"Ég get fyrirgefið þér en ég mun aldrei gleyma“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
„Þú tókst 11 ár af lífi mínu en nú hef ég fengið þau aftur. Ég var ellefu ár í helvíti. Nú er þitt helvíti rétt að hefjast,“ sagði Michelle Knight, ein kvennanna þriggja sem mannræninginn Ariel Castro hélt nauðugum á heimili sínu árum saman.

Hún tók til máls við vitnaleiðslur í Cleveland í dag og beindi orðum sínum að Castro, sem var dæmdur til ævilangrar fangelsisvistar án möguleika á náðun. Andrúmsloftið í dómsalnum var þrúgandi þegar Knight ávarpaði fyrrum kvalara sinn.

„Ég get fyrirgefið þér en ég mun aldrei gleyma. Hvað finnst Guði um það að þú hafir í hræsni þinni farið í kirkju á hverjum sunnudegi og komið svo heim til að pynta okkur? Ég mun lifa áfram á meðan þú munt deyja smám saman á hverjum degi þegar þú hugsar um árin 11 og illvirkin sem þú gerðir okkur,“ sagði Knight, en myndband af yfirlýsingu hennar má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Ariel Castro rændi þeim Knight, Amöndu Berry og Ginu DeJesus fyrir um áratug og hélt þeim nauðugum á heimili sínu. Þær losnuðu úr prísundinni á þessu ári þegar einni þeirra tókst að vekja athygli nágranna Castros.

Castro tók einnig til máls við vitnaleiðslurnar og sagðist ekki vera nein ófreskja. „Ég er sjúkur og háður klámi,” sagði hann, en hann játaði sig sekan í síðustu viku af samtals 937 ákæruliðum um mannrán, nauðganir og morð. Með játningunni komst hann hjá því að vera dæmdur til dauða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×