Erlent

Castro dæmdur í ævilangt fangelsi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Ariel Castro í réttarsalnum.
Ariel Castro í réttarsalnum. Mynd/AP
„Ég var ellefu ár í helvíti. Nú er þitt helvíti rétt að hefjast,” sagði Michelle Knight, ein þeirra þriggja kvenna sem Ariel Castro hélt nauðugum á heimili sínu árum saman.

Vitnaleiðslur standa nú yfir í Cleveland, og hafa bæði lögregluþjónar og fórnarlömb Castros komið fyrir réttinn í dag.

Knight segist hafa grátið á hverju einasta kvöldi og árin sem hún dvaldi í prísundinni hafi „snúist upp í eilífð.”

Castro hefur einnig tekið til máls, og sagðist ekki vera nein ófreskja: „Ég er sjúkur og háður klámi,” sagði hann. 

Í síðustu viku játaði Castro sig sekan af samtals 937 ákæruliðum. Hann á yfir höfði sér allt fangelsisdóm upp á meira en þúsund ár, sem tryggði að hann sæti í fangelsi til æviloka.

Áður en refsing verður ákveðinn fara fram vitnaleiðslur.

Hann rændi Michelle Knight, Amöndu Berry og Ginu DeJesus á árunum 2002 til 2004, þegar þær voru 14, 16 og 20 ára gamlar. Þær losnuðu úr prísundinni ekki fyrr en á þessu ári, þegar einni þeirra tókst að vekja athygli nágranna Castros.

Uppfært 17:35:

Dómsúrskurður hljóðar upp á ævilangt fangelsi án möguleika á náðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×