Erlent

Búddamunkur á flótta í Taílandi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Munkurinn Wirapol Sukphol í sófanum vinstra megin á myndinni.
Munkurinn Wirapol Sukphol í sófanum vinstra megin á myndinni. Mynd/AP
Taílenski búddamúnkurinn Wirapol Sukphol er eftirlýstur fyrir stórfellda glæpi, þar á meðal nauðganir, fjársvik og hugsanlega fíkniefnasmygl og manndráp af gáleysi.

Hann er 33 ára gamall og var frekar lítt þekktur í Taílandi þar til fyrir mánuði eða svo, þegar myndband birtist á Youtube þar sem hann sást ferðast um á einkaþotu með rándýra ferðatösku frá Luise Vuitton.

Þetta lúxuslíf munksins vakti mikla athygli, enda stangaðist það allmjög á við fábreytt munkalífið sem hann hafði heitið að lifa eins og aðrir búddamunkar.

Athyglin varð til þess að fleira kom fram í dagsljósið. Þar á meðal kom í ljós að hann hafði sankað að sér miklum eignum sem metnar eru á einn milljarð bata, en bat er gjaldmiðill Taílands. Þetta er jafnvirði nærri fjögurra milljarða króna.

Nú í vikunni lýsti lögreglan eftir honum og gaf út handtökuskipan. Hann er ákærður meðal annars fyrir nauðganir og fjársvik, en auk þess er hann til rannsóknar vegna gruns um aðild að peningaþvætti, fíkniefnasmygli og manndrápi af gáleysi, sem tengist umferðarslysi.

Wirapol var í Frakklandi þegar allt þetta kom fram í dagsljósið. Talið er að hann hafi flúið þaðan til Bandaríkjanna.

Þetta er stærsta hneyksli sem komið hefur upp í Taílandi í tengslum við búddatrú.

„Af og til hafa komið upp mál manna sem hafa misnotað sér munkastöðu sína, en aldrei fyrr hefur munkur verið flæktur í svona marga glæpi,” hefur AP fréttastofan eftir Pong-in Intarakhao, yfirmanni í taílensku lögreglunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×